Skiptimynt Pútíns

Evan Gershkovitsj, blaðamaður Wall Street Journal, í glerbúri við upphaf …
Evan Gershkovitsj, blaðamaður Wall Street Journal, í glerbúri við upphaf aðalmeðferðar málsins í Moskvu í morgun. Réttarhöldin eru lokuð en fjölmiðlum leyfðist að taka myndir í dómsalnum áður en réttur var settur. Ljósmynd/AFP/Natalia Kolesnikova

Fimmtán mánuðir í hinu alræmda Lefortovo-fangelsi í rússnesku höfuðborginni Moskvu hafa ekki bugað Evan Gershkovitsj, blaðamann Wall Street Journal, sem les rússneskar fagurbókmenntir og þau bréf sem honum berast auk þess að tefla við föður sinn í Bandaríkjunum til að þreyja þorrann í prísund sinni.

Þeir vina blaðamannsins sem reglulega setja sig í samband við hann lýsa Gershkovitsj sem jákvæðum og sterkum manni sem láti fátt slá sig út af laginu, greina tveir blaðamenn New York Times frá í umfjöllun um gang mála hjá manninum sem rússnesk stjórnvöld saka um njósnir án þess að eiga minnstu sönnunargögn áburði sínum til stuðnings.

Blaðamaðurinn hefur kallað yfir sig „opinbera reiði Rússlands Pútíns“ eins og starfssystkini hans á New York Times orða það, en Gershkovitsj kom fyrir dómstól í morgun í máli sem gæti kallað yfir hann allt að 20 ára dvöl bak við lás og slá í Rússlandi. Blaðamaðurinn neitar sök staðfastlega. Það gerir vinnuveitandi hans, Wall Street Journal, einnig og bandaríska utanríkisráðuneytið. Rússar daufheyrast við.

Fullkomin leynd

„Hann á sína góðu daga og slæmu eins og allir aðrir, en hann hefur trú á sjálfum sér og því að hans málflutningur sé réttur,“ segir rússneski blaðamaðurinn Maria Borzunova sem tekist hefur á hendur það eljuverk, ásamt litlum hópi rússneskumælandi vina fangans, að þýða öll þau bréf sem honum berast yfir á rússnesku til að auðvelda samþykki þeirra af hálfu fangelsisyfirvalda.

Rússnesk yfirvöld halda fullkominni leynd yfir réttarhöldunum. Engum áhorfendum er hleypt inn í dómsalinn og lögmönnum blaðamannsins, sem er bandarískur ríkisborgari, uppalinn í New Jersey, er stranglega bannað að tjá sig nokkuð um málið nema framan við dómarann.

Sá síðastnefndi gefur ekki tilefni til uppörvunar, dómarinn í málinu gumar af því við rússneska fjölmiðla að hafa aðeins sýknað fjóra sakborninga allan sinn feril sem spannar áratugi. Þegar Kreml hefur töglin og hagldirnar í rússneskum refsimálum má nánast gefa sér niðurstöðuna fyrir fram.

Réttarhöldin hreinn farsi

„Þetta eru að okkar mati sýndarréttarhöld byggð á fölskum áburði,“ segir Almar Latour, útgefandi hins gamalgróna Wall Street Journal, og bætir því við að málsmeðferðin geti því aldrei orðið annað en hreinn farsi.

Áður en Gershkovitsj var handtekinn hafði hann ferðast um Rússland í fimm ár og orðið hugfanginn af landinu. Skyndilega var hann grunaður njósnari og sat í fangaklefa. Þeir sem kunnugir eru aðferðafræði rússneskra stjórnvalda telja sig vita mætavel hvað býr undir.

Bandaríski blaðamaðurinn er ekkert annað en skiptimynt í augum Pútíns. Hann er handtekinn, borinn þungum sökum sem enginn fótur er fyrir og réttarhöld haldin sem af augljósum ástæðum þola ekki dagsljósið – enda fara þau fram fyrir luktum dyrum.

Ákærði hlýtur sinn dóm, Rússar ljúka réttarhöldunum áður en næsta skref er stigið. Þegar dómur liggur fyrir stíga samningamenn Kremlar fram. Þeir bjóða sinn fanga í skiptum fyrir einhvern feitan bita rússneskan sem situr í fangelsi einhvers staðar á Vesturlöndum. Annars fái þeirra fangi að rotna í rússnesku fangelsi um áratugaskeið.

Körfuboltastúlkan og „kaupmaður dauðans“

„Hann er spilapeningur Kremlar og þar vilja menn skipta honum út,“ segir Pjotr Sauer, blaðamaður breska blaðsins The Guardian og náinn vinur Gershkovich.

Dæmin eru mýmörg en líta má til þess þegar Rússar skiptu á Bandaríkjamanninum Trevor Reed og rússneskum flugmanni í apríl 2022. Flugmaðurinn var handtekinn í Bandaríkjunum fyrir meint kókaínsmygl og átti von á þungum dómi þar en Reed var gefið að sök að hafa ráðist með ofbeldi á rússneska lögregluþjóna.

Þekktasta nýlega dæmið eru þó líkast til skiptin á bandarísku körfuknattleikskonunni Brittney Griner, sem tekin var fyrir handhöfn kannabisefna í Rússlandi, og hinum alræmda „kaupmanni dauðans“, vopnasalanum Viktor Anatolyevitsj Bout sem Bandaríkjamenn höfðu þá klófest og var í haldi þeirra.

Sjálfur hefur Vladimír Pútín forseti rætt opinberlega um möguleg skipti í máli Wall Street Journal-blaðamannsins. Í sjónvarpsviðtali í febrúar sagði hann samningaviðræður þegar í burðarliðnum og nefndi þá að hafa mætti skipti á Gershkovitsj og rússneska FSB-leyniþjónustumanninum og drápsmanninum Vadím Krasíkov sem situr í lífstíðarfangelsi í Þýskalandi fyrir víg tjetjensks aðskilnaðarsinna í Berlín árið 2019.

Allir blaðamenn í áhættuhópi

Rússar segja Gershkovitsj hafa starfað á laun fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA og viðað að sér viðkvæmum upplýsingum um hergagnaverksmiðju í Jekaterínburg, austan við Úralfjöllin, en þar var hann handtekinn í mars í fyrra.

Vestrænn fréttaritari hefur ekki verið ákærður fyrir njósnir í Rússlandi síðan á tíma Sovétríkjanna og kom handtaka Bandaríkjamannsins því verulega á óvart. Með henni hafi þó Rússar stigið yfir vissa línu, segir Maria Borzunova sem áður er vitnað í. Nú sé það dagljóst að allir blaðamenn, ekki bara rússneskir, séu í áhættuhópi hvað varðar refsigleði og hæpnar sakargiftir Vladimírs Pútíns og hirðar hans.

New York Times

BBC

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert