Handtóku grímuklæddan mann á þaki vallarins

Maðurinn var handsamaður í 40 metra lofthæð.
Maðurinn var handsamaður í 40 metra lofthæð. Samsett mynd/Twitter/AFP/Tobias Schwarz

Þýskir sérsveitarmenn yfirbuguðu grímuklæddan karlmann sem hafði klifrað upp undir þak leikvallarins í Dortmund á leik Danmerkur og Þýskalands. 

Maðurinn er 21 árs gamall og kemur frá borginni Osnabrück í Þýskalandi. Auk grímunnar bar maðurinn einnig svartan bakpoka. Tókst manninum að klifra upp þak Signal Iduna-vallarins í um 40 metra lofthæð.

Leikmenn og áhorfendur ráku upp stór augu er þeir komu auga á manninn þar sem hann klifraði í bjálkum þaksins en sérsveitarmenn handsömuðu hann á innan við 53 mínútum.

Fundu myndatökubúnað í bakpokanum

Seinni hálfleik í 16-liða úrslitum Dana gegn Þýskalandi seinkaði vegna atviksins en þess má geta að fyrri hálfleikurinn varð einnig fyrir seinkun vegna þrumuveðurs.

Ekki liggur fyrir hvernig manninum tókst að komast fram hjá ströngu öryggiseftirliti viðburðarins en ekkert bendir til þess að ásetningur hans hafi verið illur að sögn lögreglu. 

Í bakpoka mannsins fannst myndatökubúnaður. Telur lögregla því líklegt að maðurinn hafi verið að taka uppátækið upp, en myndbönd þar sem ofurhugar kljúfa háskalegar byggingar án öryggisbúnaðar eru vinsæl á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert