Komið að skuldadögum hjá Macron

Marine Le Pen og Emmanuel Macron.
Marine Le Pen og Emmanuel Macron. AFP

Fyrsta umferð þingkosninga fer fram í Frakklandi í dag en hægriflokkar gætu nú komist til valda, í fyrsta sinn frá árinu 2012.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, boðaði til kosninganna í skyndi eftir að flokkur hans beið afhroð í kosningum til Evrópuþings í byrjun júní.

Eftir snarpa kosningabaráttu eru taldar miklar líkur á að flokkur Marine Le Pen sigri kosningarnar en flokkur hennar, Rally National, hefur mæst með hátt í 40% fylgi í skoðanakönnunum. Fari svo að flokkurinn sigri kosningarnar mun Jordan Bardella taka við embætti forsætisráðherra af Gabriel Attal, en haft er eftir honum í umfjöllun breska ríkisútvarrpsins um kosningarnar að hann hyggist einungis taka starfinu hljóti hann hreinan meirihluta í þinginu. 

Marine Le Pen var glaðlynd á kjörstað í dag.
Marine Le Pen var glaðlynd á kjörstað í dag. AFP/Francois Lo Presti

Mikil óánægja hefur ríkt um stefnu Macron í mörgum málaflokkum, til dæmis í innflytjenda- og efnahagsmálum og er því búist við álíka niðurstöðu og í Evrópuþingskosningunum.

François Hollande, fyrrverandi forseti Frakklands og lærifaðir Macrons, lýsti því til að mynda yfir að dagar Macrons við stjórnvölin væru taldir, en hann býður sig nú fram fyrir bandalag vinstri flokka. 

Macron greiddi atkvæði fyrr í dag.
Macron greiddi atkvæði fyrr í dag. AFP/Yara Nardi

Niðurstöðu ekki að vænta strax

Þingkosningarnar í Frakklandi fara fram með sérstöku sniði. Ef enginn einn frambjóðandi fær meirihluta í sínu kjördæmi fara þeir frambjóðendur sem hljóta nægt fylgi áfram í næstu lotu þar sem kosið er á nýjan leik. Niðurstöðu kosninganna er því ekki að vænta alveg strax.

Þó að búist sé við að kjörsókn verði góð er ljóst að kosningarnar vekja mis mikla lukku meðal kjósenda. Ólympíuleikarnir fara nú fram í París í sumar og þykja kosningarnar því varpa skugga og spilla fyrir hátíðarhöldum tengdum leikunum.

Óháð niðurstöðu kosninganna hyggst Macron þó sitja áfram út kjörtímabilið sitt, en þrjú ár eru í að kosið verði til forseta á ný.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert