Orban vill mynda nýjan þingflokk á Evrópuþingi

Viktor Orban (t.v.) ásamt formanni FPÖ Herbert Kickl (t.h.) á …
Viktor Orban (t.v.) ásamt formanni FPÖ Herbert Kickl (t.h.) á blaðamannafundi í dag. TOBIAS STEINMAURER / APA / AFP

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, vill mynda nýjan þingflokk á Evrópuþingi með róttækum hægriflokki frá Austurríki og tékkneskum miðjuflokki.

Orban tilkynnti um áformin á blaðamannafundi ásamt formanni Frelsisflokks Austurríkis (FPÖ), Herbert Kickl, og formanni tékkneska flokksins ANO, Andrej Babis, en hann er fyrrverandi forsætisráðherra landsins og milljarðamæringur. 

Andrej Babis formaður ANO og fyrrum forsætisráðherra Tékklands.
Andrej Babis formaður ANO og fyrrum forsætisráðherra Tékklands. AFP/Radek Mica

Föðurlandsvinir Evrópu

Nýja bandalagið var kynnt undir slagorðinu „patriots for Europe“ eða „föðurlandsvinir fyrir Evrópu“ en til að hljóta viðurkenningu á þingi þurfa flokkar frá fjórum löndum til viðbótar að ganga í þingflokkinn.

„Nýtt tímabil byrjar hér og nú og eflaust er fyrsta afgerandi stund þessa tímabils stofnun nýrrar evrópskar fylkingar sem mun breyta evrópskum stjórnmálum,“ sagði Orban á fundinum.

Leiðtogarnir þrír undirrituðu „föðurlandsvina stefnuskrá“ og hétu þar að stuðla að friði, öryggi og þróun í stað stríðs, fólksflutninga og stöðnunar sem „Brussel elítan“ hafi komið á í Evrópu að sögn Orban. 

„Make Europe Great Again“

Ungverjaland tekur við formennsku ESB á morgun en formennskan skiptist á sex mánaða fresti. Hefur landið heitið því að beita sér fyrir sterkri evrópskri stefnu á formennsku tímabilinu undir slagorðinu „Make Europe Great Again“ sem dregur innblástur sinn frá slagorði Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta og góðvini Orbans. 

Áður tilheyrði flokkur Orbans stærsta þingflokki Evrópuþingsins, Evrópska þjóðarflokkinum, en flokkurinn yfirgaf hann árið 2021 eftir deilur vegna meintrar afturfarar Ungverjalands í lýðræðismálum.

FPÖ sem hefur verið kenndur við hægriöfgar hefur hingað til tilheyrt þingflokknum Sjálfsmynd og lýðræði ásamt ítalska flokkinum Lega Nord og franska Þjóðfylkingarflokki Marine Le Pen. 

ANO flokkurinn tilkynnti í síðustu viku að hann hygðist segja sig úr bandalagi frjálslyndra Renew Europe. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert