Forstjóri sjúkrahúss segist hafa verið pyntaður

Mohammed Abu Salmiya eftir að honum var sleppt úr haldi.
Mohammed Abu Salmiya eftir að honum var sleppt úr haldi. AFP/Bashar Taleb

Forstjóri stærsta sjúkrahúss Gasasvæðisins, sem var látinn laus eftir að hafa verið sjö mánuði í haldi, segist hafa verið pyntaður af Ísraelsher.

Mohammed Abu Salmiya, forstjóri sjúkrahússins Al-Shifa, var á meðal tuga Palestínumanna sem var sleppt úr haldi og þeir fluttir aftur á Gasasvæðið til meðhöndlunar, að sögn ísraelskra yfirvalda.

„Fengu hvorki mat né lyf“

Abu Salmiya sagði að hann og aðrir fangar hefðu gengið í gegnum „miklar pyntingar" í ísraelskum fangelsum eftir að þeir voru teknir höndum í kjölfar árásar liðsmanna Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október í fyrra.

„Þó nokkrir fangar dóu í yfirheyrslumiðstöðvum og fengu hvorki mat né lyf," sagði Abu Salmiya, sem sjálfur er enn þumalputtabrotinn.

„Í tvo mánuði borðuðu fangarnir ekkert annað en brauðhleif á dag," bætti hann við. „Fangar voru niðurlægðir, bæði líkamlega og andlega." Hann nefndi einnig að hann hefði aldrei verið ákærður.

Al-Shifa er stærsta sjúkrahúsið á Gasasvæðinu.
Al-Shifa er stærsta sjúkrahúsið á Gasasvæðinu. AFP

Ísraelska leyniþjónustan, Shin Bet, sagðist hafa ákveðið að sleppa föngunum úr haldi í samráði við Ísraelsher „til að losa pláss í fangelsum".

Leyniþjónustan sagðist jafnframt vera „mótfallin lausn hryðjuverkamanna" sem hefðu tekið þátt í árásunum á ísraelska borgara „og þess vegna var ákveðið að frelsa þó nokkra fanga á Gasa sem minni hætta var talin stafa af".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert