Sektaður fyrir að nota einkunnarorð nasista

Hoecke hefur tvívegis verið sektaður fyrir notkun á einkunarorðum nasista.
Hoecke hefur tvívegis verið sektaður fyrir notkun á einkunarorðum nasista. AFP/Jens Schlueter

Björn Höcke, umdeildur hægri stjórnmálamaður í Þýskalandi, fékk í dag 16.000 evru sekt fyrir notkun á einkunnarorðum nasista sem hafa verið bönnuð í Þýskalandi. Sektin nemur tæplega 2.5 milljónum íslenskra króna og er þetta í annað sinn sem Höcke er sektaður fyrir brot sem þetta. 

Höcke, sem er leiðtogi róttæka hægri flokksins Alternative für Deutschland (AfD) í austuhluta sambandsríkisins Thuringia, fékk umrædda sekt fyrir að nota vísvitandi einkunnarorðin „Alles für Deutschland,“ eða „Allt fyrir Þýskaland,“ á samkomu í desember á síðasta ári. 

Ekki fyrsta sekt Höcke

Samkoman var haldinn í borginni Gera í Þýskalandi og er Höcke sagður hafa kallað setninguna „allt fyrir“ og hvatt mannfjöldann til að svara „Þýskaland“.

Um er að ræða einkunnarorð Sturmabteilung, SA, eða stormsveita nasista, sem gegndu lykilhlutverki í valdatöku Adolfs Hitlers, auk nasistakveðju og öðrum slagorðum og táknum frá þeim tíma. Hefur þessi setning, eða einkunnarorð, nú verið bönnuð í Þýskalandi.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hecke er sektaður fyrir notkun á umræddum einkunnarorðum því í maí fékk hann 13.000 evra sekt fyrir notkun einkunnarorðanna á kosningafundi sem fór fram árið 2021. Jafngildir sú sekt rúmum tveimur milljónum íslenskra króna. 

Vinsældir Hocke hafa ekkert dvínað

Við upphaf réttarhaldanna í síðustu viku hélt Höcke því fram að einkunnarorðin samanstæðu af algengum orðum sem notuð voru af glæpasamtökum. Þá kallaði hann málsmeðferðina „farsa“.

Höcke er talinn öfgamaður af þýsku leyniþjónustunni og hefur það lengi valdið ágreiningi. 

Einu sinni kallaði hann minnisvarðann um helförina, sem staðsettur er í Berlín, „minnisvarða um skömm“ og hvatti til þess að gerð yrði stefnubreyting varðandi minnisvarða landsins. 

Þrátt fyrir að hafa hneykslað marga hafa vinsældir Höcke ekki dvínað. Hann er í forsvari fyrir AfD í Thuringia í kosningum sem fram fara í Þýskalandi nú í september. Nýtur flokkurinn mikils fylgis, en þó er ólíklegt að aðrir flokkar muni styðja Höcke til að verða forsætisráðherra sambandsríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert