Sumir fagna á meðan aðrir lýsa yfir áhyggjum

Jordan Bardella, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, og Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.
Jordan Bardella, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, og Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. AFP/Christophe Simon/Filippo Monteforte

Stjórnmálamenn í Evrópu hafa ýmist fagnað niðurstöðum fyrri umferðar þingkosninganna í Frakklandi eða viðrað verulega áhyggjur af þeim. 

Þjóðfylkingin, flokkur Marine Le Pen, hlaut ríflega 33% í fyrri umferð þingkosninganna sem var mikið áfall fyrir Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Miðjubandalag hans hlaut tæplega 21% fylgi og bandalag vinstriflokka undir merkjum Nýju Alþýðufylkingarinnar hlaut 28%.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, hrósaði Þjóðfylkingunni fyrir sigur sinn í fyrri umferð, en seinni umferðin verður næsta sunnudag.

„Stöðug tilraun til þess að sverta og króa fólk af sem kýs ekki vinstrið er brella sem færra og færra fólk fellur fyrir,“ sagði Meloni í samtali við Adnkronos fréttastöðina í kjölfar kosninganna í Frakklandi.

Árangurinn áhyggjuefni

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði hins vegar árangur Þjóðfylkingarinnar vera áhyggjuefni.

„Það getur enginn ekki látið sig málið varða þegar, hjá okkar nánasta bandamanni og vinaþjóð [Frakkland], stjórnmálaflokkur sem sér Evrópu sem vandamálið en ekki lausnina er fremstur,“ sagði Annalena við blaðamenn í Berlín í Þýskalandi.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, varaði við hættulegum pólitískum straumum í Evrópu og Frakklandi.

„Þetta er allt farið að lykta mjög hættulega,“ sagði Tusk. 

Á sunnudag verður seinni umferð þingkosninganna og kemur þá í ljós hvort að Þjóðfylkingin nái hreinum meirihluta á þinginu.

Mar­ine Le Pen og Jor­d­an Bar­della, leiðtogi flokksins, vilja hrein­an meiri­hluta á þingi, en þá þurfa þau 289 þing­sæti af 577 sæt­um.

Pólski forsætisráðherrann Donald Tusk.
Pólski forsætisráðherrann Donald Tusk. AFP/Wojtek Radwanski

Starmer segir að draga þurfi lærdóm af kosningunum

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, sagði að vinstrimenn þyrftu að draga lærdóm af niðurstöðunum.

„Lærdómurinn sem ég dreg af [sigri Þjóðfylkingarinnar] er að við verðum að taka á hversdagslegum áhyggjum fólks,“ sagði Starmer, en Bretar ganga til þingkosninga 4. júlí.

Geert Wilders, sem vann nýlega stórsigur í hollensku þingkosningunum, óskaði Þjóðfylkingunni til hamingju með sigurinn í færslu á Twitter í gærkvöldi.

Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins.
Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins. AFP/Carlos Jasso
Geert Wilders, formaður Frelsisflokksins í Hollandi.
Geert Wilders, formaður Frelsisflokksins í Hollandi. AFP/Remko de Waal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert