Dani strand í taílensku fangelsi

Taíland er vinsæll áfangastaður.
Taíland er vinsæll áfangastaður. AFP/Lillian Suwanrumpha

Í meira en þrjú og hálft ár hefur 54 ára gamall Dani deilt fangaklefa með 63 öðrum í taílensku fangelsi í Pattaya. Í öðrum enda klefans er sameiginlegt salerni, sem er bara gat á gólfinu umkringt hnéháum vegg.

Sjálfur lýsir hann tímanum í fangelsinu sem „helvíti á jörðu“.

Og núna eru það aðeins 72.000 danskar krónur sem standa í vegi fyrir því að hinn 54 ára gamli maður verði fluttur úr fangelsinu í Taílandi til Danmerkur. Upphæðin samsvarar um 1,4 milljónum íslenskra króna.

Fangelsi í Taílandi alræmd fyrir slæman aðbúnað

Fangelsið er staðsett í útjaðri hins þekkta strand- og skemmtibæjar Pattaya, í nokkurra klukkustunda akstursfjarlægð suður af Bangkok. En þrátt fyrir að fangelsið sé aðeins stutt frá ströndum Pattaya með pálmatrjám og næturlífi, eru aðstæður í fangelsinu í algjörri mótsögn við mörg lúxushótel dvalarstaðarins.

Taílensk fangelsi eru fræg að endemum: Þau eru yfirfull, fangarnir sæta niðrandi refsingum og maturinn og drykkjarvatnið er ömurlegt. Svona hljómar gagnrýnin á aðstæður meðal annars í nýjustu skýrslu alþjóðlegu mannréttindasamtakanna FIDH um fangelsi í Taílandi.

„Þú getur ekki hreyft þig og þú getur ekki farið á klósettið á kvöldin því þá er þinn staður horfinn,“ sagði maðurinn við fréttamann Danska ríkisútvarpsins.

Fékk 15 ára fangelsisdóm

Maðurinn var árið 2021 dæmdur fyrir neyslu á meðal annars hassi auk vörslu og sölu fíkniefna. Þegar hann var handtekinn var hann með 9,5 grömm af amfetamíni á sér. Hann var upphaflega dæmdur í tæplega 15 ára fangelsi en dómurinn var síðar styttur í fimm ár og sjö mánuði.

Taílensk yfirvöld hafa gefið grænt ljós á flutning til afplánunar í dönsku fangelsi en ekki hefur getað orðið af því vegna sektar upp á 72.000 danskra króna sem hann hefur verið dæmdur til að greiða.

Maðurinn segist ekki hafa nokkra möguleika á því að verða sér úti um slíkt fé.

Utanríkisráðuneytið getur gripið inn í þegar danskir ríkisborgarar lenda í vandræðum erlendis, en ráðuneytið hefur ekki heimild til að greiða sektir.

„Við getum aðstoðað við hina raunverulegu verklegu vinnu við að fá peningana millifærða til að greiða sekt. En fanginn verður sjálfur að fjármagna sektina og fá peningana frá til dæmis vinum eða fjölskyldu,“ segir Uffe Wolffhechel hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Ráðleggur fólki að halda sig frá eiturlyfjum í Taílandi

Danski maðurinn ráðleggur öðrum að halda sig algjörlega frá eiturlyfjum í Taílandi.

„Ég vil vara fólk við því sem getur gerst. Þú þarft virkilega að hugsa um það og ekki gera hluti eins og ég gerði. Ég mæli eindregið frá því,“ segir maðurinn, sem sér fram á að losna úr fangelsinu eftir rúmlega ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert