Fjórir látnir og yfir 20 særðir eftir árásina

Viðbragðsaðilar draga særðan mann út úr bíl sem var eyðilagður …
Viðbragðsaðilar draga særðan mann út úr bíl sem var eyðilagður í flugskeytaárás Rússa á Dnípró í síðustu viku. AFP

Fjórir eru látnir og yfir 20 særðir eftir dróna- og flugskeytaárás Rússa á úkraínsku borgina Dnípró í morgun, að sögn embættismanna.

Síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum hafa hersveitir þeirra ráðist ítrekað á þessa iðnaðarborg og á nærliggjandi svæði.

„Fjórir voru drepnir í árás Rússa á Dnípró í morgun. 27 særðust. Ellefu þeirra hafa verið fluttir á sjúkrahús. Ástand tveggja er alvarlegt," sagði héraðsstjórinn Sergí Lisak á samfélagsmiðli.

Drónar og flugskeyti skotin niður

Úkraínski loftherinn sagði að loftvarnakerfi þeirra hefði skotið niður sex dróna og fimm af sjö flugskeytum, sem aðallega var beint að Dnípró. 

Embættismaður í Dnípró birti ljósmyndir af ónýtum byggingum og sagði árásina hafa verið gríðarmikla.

Fyrir stríðið bjó um ein milljón manna í borginni, sem er í um 100 kílómetra fjarlægð frá víglínunni í suðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert