Sex látnir vegna flóðanna í Sviss

Úrhellisrigning og aurskriður hafa valdið manntjóni í Sviss.
Úrhellisrigning og aurskriður hafa valdið manntjóni í Sviss. AFP

Sex hafa látist af völdum flóða í Sviss um helgina en lík fannst í suðausturhluta Ticino í dag að sögn lögreglu.

Flóðin eru þau verstu síðan árið 2000 en þá létust 13 vegna aurskriðu sem lagði þorpið Gondo í rúst.

Lögreglan segir líkið hafa fundist í Maggia-ánni sem er sama svæði og annað lík fannst í gær. Björgunarsveitir notuðu þyrlu til þess að ná líkamsleifunum úr ánni.

Á sunnudag létust þrjár þýskar konur á sjötugsaldri eftir úrhellisrigningu sem olli aurskriðu.

Vísindamenn segja að loftslagsbreytingar af völdum manna auki alvarleika, tíðni og lengd öfgakenndra hamfara eins og flóða og storma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert