„Við viljum bara finna hann“

Jay Slater hefur verið saknað síðan 17. júní.
Jay Slater hefur verið saknað síðan 17. júní.

Móðir Jay Slater sam hvarf í fríi sínu á Tenerife segir orð ekki geta lýst þeirri kvöl sem fjölskyldan upplifir nú.

Jay Slater hefur verið saknað síðan 17. júní. Slater er frá Bretlandi en hann var í fríi á Teneri­fe ásamt vin­um sín­um til að sækja NRG-tón­list­ar­hátíðina á Am­er­ísku strönd­inni. Þegar síðast spurðist til hans var hann stadd­ur í Rural de Teno-þjóðgarðinum á norðvest­ur­hluta eyj­ar­inn­ar.

Leitinni að Slater var hætt í vikunni, en lögreglan rannsakar málið þó enn þá. 

Átti allt lífið fram undan

Dagblaðið Guardian greinir frá því að Debbie Duncan, móðir Slater, lýsi honum sem 19 ára fallegum dreng sem átti allt lífið fram undan.

„Við viljum bara finna hann,“ segir Duncan í yfirlýsingu. Þá fordæmir hún vangaveltur og samsæriskenningar á netinu. Hún segir þær viðbjóðslegar.

Í yfirlýsingu sinni segir Duncan Slater vera venjulegan strák sem sé á þriðja ári í iðnnámi. Hann sé vinsæll ungur maður sem eigi stóran vinahóp. Hún segir fjölskylduna nána og að þau séu niðurbrotin yfir hvarfi hans. 

Þá þakkar Duncan spænskum yfirvöldum fyrir framgöngu þeirra í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert