Kennari eignaðist barn með nemenda sem hún braut á

Barnið sem kennarinn eignaðist með nemandanum var fjarlægt innan við …
Barnið sem kennarinn eignaðist með nemandanum var fjarlægt innan við sólarhring frá fæðingu. AFP

Rebecca Joynes, breskur kennari, var í gær dæmd í sex og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn nemendum sínum á táningsaldri. Hún stundaði samfarir með tveimur drengjum og eignaðist barn með öðrum þeirra.

Samskipti Joynes við drengina hófust þegar þeir voru 15 ára en hún tældi (e. groomed) þá með kynferðislegum samskiptum við þá í gegnum samfélagsmiðla.

Kviðdómur sakfelldi konuna fyrir kynferðisbrot gegn börnum og hafði áhrif að hún gegndi trúnaðarstöðu þegar brotin áttu sér stað.

Misnotaði trúnaðarstöðu sína

Þegar dómarinn kvað upp dómsorð sagði hann að hún hefði eyðilagt feril sinn og misst forræði yfir barni sínu einungis vegna eigin gjörða.

„Þú varst manneskjan sem stjórnaði, manneskjan sem hefði átt að vita betur. Þess í stað misnotaðir þú þá trúnaðarstöðu og nýttir þér forréttindahlutverk þitt til að fullnægja þér kynferðislega,“ sagði Kate Cornell dómari í málinu.

Annar drengjanna sagði fyrir dómi að hann hefði verið þvingaður, niðurlægður og andlega misnotaður af Joynes.

Barnið sem Joynes eignaðist var tekið af henni innan sólarhrings frá fæðingu.

Strákar geti líka verið fórnarlömb

Beth Alexander lögreglustjóri sagði fyrir utan dómhúsið að það skorti enn skilning á því að karlmenn og drengir væru fórnarlömb kynferðisbrota.

„Þeir hafa þurft að lesa athugasemdir og þar sem fram kemur að aðrir séu „afbrýðisamir“ út í þá og að þeir ættu að vera „ánægðir með að ungur kvenkennari hafi haft áhuga á þeim“. Þessi orðræða er mjög skaðleg og hættuleg,” sagði Alexander fyrir utan dómhúsið.

„Konur geta enn verið barnaníðingar. Þetta hugtak er ekki eingöngu ætlað körlum. Karlar og drengir geta enn verið fórnarlömb kynferðisofbeldis,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert