Biðlar til ungmenna að halda sér í Afríku

Ousmane Sonko, forsætisráðherra Senegal.
Ousmane Sonko, forsætisráðherra Senegal. AFP

Ousmane Sonko, forsætisráðherra Senegal, hvatti í dag ungt fólk í landinu til að leggja ekki í ferðalag yfir hina hættulegu Atlantshafsleið til Evrópu.

Í vikunni hvolfdi bátur á leiðinni með fjölda tilvonandi farandverkamanna innanborðs með þeim afleiðingum að um 90 manns létu lífið.

„Enn eitt skipbrot hefur orðið undan ströndum okkar og þó við bíðum enn eftir nákvæmum tölum er talið að það hafi kostað líf fjölda ungs fólks,“ sagði Sonko í ræðu í Gaston Berger háskólanum í borginni Saint-Louis en ræðunni var sömuleiðis streymt á Facebook-síðu hans.

„Þetta er synd, þetta er grátlegt. Mig langar að biðla til ungs fólks: lausnin við vandamálum ykkar liggur ekki á eintrjáningum,“ sagði Sonko í ræðunni sem hann flutti fyrir framan hundruð nemanda.

Fleiri fara yfir Atlandshafið

Á fimmtudag greindi ríkisfréttastofa Máritaníu frá því að strandgæsla landsins hefði fundið 89 lík um borð í stórum fiskibáti sem hvolft hafði undan suðvesturströnd landsins.

Samkvæmt farþegum sem lifðu slysið af hafði báturinn lagt af stað til Evrópu frá landamærum Senegal og Gambíu með 170 farþega innanborðs. Níu var bjargað en 72 er enn saknað.

Atlantshafsleiðin er sérstaklega hættuleg vegna sterkra strauma en farandverkafólk ferðast gjarnan yfir hana á ofhlöðnum og ósjófærum bátum án nægilegs drykkjarvatns.

Þrátt fyrir þetta hefur leiðin vaxið í vinsældum hjá ungu afrísku verkafólki í leit að betra lífi vegna aukins eftirlits á Miðjarðarhafinu.

„Framtíð heimsins liggur í Afríku

„Ég get fullvissað ykkur um að löndin sem sumt ungt fólk vill flytja til eru sjálf í krísu,“ sagði Sonko og bætti við:

„Framtíð heimsins liggur í Afríku og þið unga fólkið þurfið að vera meðvituð um það. Eina heimsálfan þar sem enn er rými fyrir framfarir og verulegan vöxt er Afríka.“ 

Meira en 5.000 farandverkamenn hafa látist við að reyna að komast sjóleiðina til Spánar frá Afríku á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en það jafngildir 33 dauðsföllum á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert