Íhuga að framlengja reykingarbann

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tillaga ríkisstjórnar Keirs Starmers, forsætisráðherra Bretlands, um að framlengja reykingabann við sum útisvæði í Bretlandi hefur fengið harða gagnrýni frá stjórnarandstöðunni.

Það eru 17 ár síðan reykingabann var fyrst sett á á Englandi, Wales og Norður-Írlandi í kjölfar svipaðs banns í Skotlandi árið 2006. Bannið nær meðal annars yfir útisvæði við krár og leikvanga.

„Yfir 80.000 manns deyja á hverju ári vegna reykinga. Þetta er þung byrði fyrir breska heilbrigðiskerfið að bera og líka kostnaður fyrir skattgreiðendur,“ sagði Starmer.

Ekki er búið að taka ákvörðun um framlenginguna en Starmer sagði hana vera í bígerð.

Brot á einstaklingsfrelsi

Talsmenn kráa- og veitingahúsaiðnaðarins hafa gagnrýnt áformin harðlega. Reem Ibrahim, hjá hugveitu efnahagsmálastofnunar hægrimanna (IEA), sagði áformin vera enn einn naglinn í kistuna fyrir kráariðnaðinn.

Tim Martin, stofnandi kráarkeðjunnar J.D. Wetherspoon, sagði að framlengingin brjóti gegn einstaklingsfrelsi.

„Spurningin er hvort stjórnvöld eigi að hafa afskipti af einstaklingafrelsi þar sem hætta stafar af,“ sagði Martin og spurði sig hvort stjórnvöld ætli þá að hafa afskipti af öðrum starfsemi sem þau telja hættulega, eins og fjallgöngur eða hestaferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert