Stjórnmálamaður myrti blaðamann sem setti út á störf hans

Blaðamaðurinn Jeff German fannst fyrir utan heimili sitt í Nevada …
Blaðamaðurinn Jeff German fannst fyrir utan heimili sitt í Nevada þar sem hann hafði verið stunginn sjö sinnum. AFP

Robert Telles, fyrrverandi stjórnmálamaður í Nevada-ríki í Bandaríkjunum, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð á blaðamanni sem hafði skrifað gagnrýnar fréttir um hann.

Telles hefur verið í haldi yfirvalda frá árinu 2022 fyrir að stinga rannsóknarblaðamann Las Vegas Review-Journal, Jeff German, sjö sinnum með þeim afleiðingum að German lét lífið.

Telles neitaði sök en meðal sönnunargagna sem kynnt voru í réttarhöldunum yfir honum voru lífsýni hans sem fundust undir nöglum hins látna en kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Telles væri sekur og skyldi sæta lífstíðarfangelsi.

Tapaði kosningum eftir greinarnar

German sem var 69 ára þegar hann var myrtur í september árið 2022 fannst látinn fyrir utan heimili sitt í Nevada með sjö stungusár á hálsi og kvið.

German hafði áður skrifað nokkrar greinar sem komu ekki sérstaklega vel út fyrir Telles, meðal annars eina þar sem hann var sakaður um að eiga „óviðeigandi“ samband við undirmann sinn.

Í kjölfarið tapaði Telles kosningum þar sem hann sóttist eftir endurkjöri sem opinber stjórnandi Clark-sýslu.

Skömmu síðar fannst German myrtur fyrir utan hús sitt.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert