Bregðast við dauða gíslanna „af fullum krafti“

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels.
Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels. AFP/Ahmad Gharabli

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, segir að stjórnvöld muni „bregðast við af fullum krafti“ eftir að lík sex gísla sem höfðu verið í haldi Hamas-samtakanna fundust á Gasasvæðinu.

Í færslu á X kenndi Katz Hamas um dauða þeirra og sagði þá hafa verið „tekna af lífi á grimmilegan hátt…til að vekja upp ótta og í tilraun til að sundra ísraelsku samfélagi“, að því er BBC greindi frá.

Allsherjarverkfall hófst í Ísrael í morgun til að þrýsta á stjórnvöld í landinu um að ná samkomulagi um lausn gíslanna sem enn eru í haldi Hamas.

Arnon Bar-David, leiðtogi ísraelsku verkalýðssamtakanna Histadrut, sagði slíkan samning „mikilvægari en nokkuð annað“.

„Við erum að fá líkpoka í staðinn fyrir samning,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert