Þjóðverjar vilja senda hælisleitendur til Rúanda

Aðstaðan í Rúanda var byggð af Bretum en Stamp segir …
Aðstaðan í Rúanda var byggð af Bretum en Stamp segir áformin helst eiga við um fólk sem komi yfir landamærin í austri. Mynd úr safni. AFP/Armen Nimani

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa nú til skoðunar að fylgja í fótspor Breta og senda hælisleitendur til Rúanda.

Joachim Stamp, ráðherra innflytjendamála í Þýskalandi, lagði til að Rúanda yrði nýtt sem „öruggt þriðja land“ fyrir hælisleitendur á meðan verið væri að fara yfir umsóknir þeirra til að draga úr hvatanum um að koma til Þýskalands.

The Telegraph greinir frá.

Hefur samsteypustjórnin í landinu verið undir auknum þrýstingi um að leggja fram aðgerðaráætlanir um strangari takmarkanir á aðflutningi hælisleitenda til Evrópu og finna nýjar leiðir til að fæla fólk frá því að reyna.

Samkvæmt tillögu Stamp yrðu málsmeðferðir hælisleitenda sem yrðu sendir til Rúanda gerðar undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna.

10.000 manns á ári

Stamp tjáði sig um tillöguna í hlaðvarpi í dag og sagði að nýja stefnan myndi einna helst eiga við um flóttamenn sem kæmu í gegnum landamæri ESB í austri þ.e. Hvíta-Rússlandi og Rússlandi og myndi taka til um 10.000 manns á ári hverju.

Aðstaðan í Rúanda var upphaflega ætluð undir svipuð áform fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, en fyrsta verk núverandi forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, var að hætta við þau.

Hefur stjórn Starmers frekar ákveðið að verja fjármagninu, sem hefði farið í verkefnið, í landamæraöryggissveit, en hlutverk sveitarinnar er að uppræta glæpasamtök sem smygla fólki yfir landamæri með svipuðum aðferðum og beitt er gegn hryðjuverkasamtökum.

Önnur lönd græði á kæruleysi Verkamannaflokksins

Bretland hafði þegar eytt 318 milljónum punda í aðstöðuna og í að efla efnahag Rúanda en það fé verður ekki endurheimt í kjölfar ákvörðunar Starmer.

Breskir íhaldsmenn eru ekki par sáttir og segja afleitt að önnur lönd græði á „kæruleysislegri“ innflytjendastefnu Verkamannaflokksins.

Sagði Suella Braverman, fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands, að ákvörðun Þjóðverja væri enn ein sönnun þess að mikill stuðningur væri við aukinn fælingarmátt gegn hælisleitendum innan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert