Trump og Harris hittast í fyrsta sinn

Donald Trump og Kamala Harris undirbúa sig á mismunandi hátt …
Donald Trump og Kamala Harris undirbúa sig á mismunandi hátt fyrir kappræðurnar sem haldnar verða 10. september. Samsett mynd/AFP/Getty Images/Kevin Dietsch/Win McNamee

Þegar Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, mætast í kappræðum í næstu viku verður það í fyrsta sinn sem þau tvö hittast á ævinni.

Spennan í stjórnmálunum vestanhafs er áþreifanleg en nánast enginn fylgismunur er á frambjóðendunum tveimur í sjö helstu sveifluríkjunum sem koma til með að ráða úrslitum um það hver vinnur kosningarnar.

Kappræðurnar verða klukkan eitt að nóttu til á miðvikudag á íslenskum tíma, eða klukkan 21 á þriðjudegi að staðartíma. Kappræðurnar fara fram í Stjórnarskrársetrinu í Pennsylvaníu og ABC news heldur utan um þær og sjónvarpar.

Kappræðurnar munu standa yfir í 90 mínútur og verða tvö auglýsingahlé.

Mætt til til að undirbúa sig

ABC mun ekki gefa út hvaða mál verða helst rædd en ætla má að meðal annars farið verði yfir efnahagsmál, útlendingamál, aðgengi kvenna að fóstureyðingum, utanríkismál og jafnvel framgöngu Trumps í kjölfar þess að hann tapaði síðustu forsetakosningum.

Undirbúningur frambjóðenda er mismunandi en í dag mætti Harris til Pennsylvaníu þar sem hún mun vera ásamt ráðgjöfum næstu fimm daga til að undirbúa sig fyrir kappræðurnar.

Hún er ekki með skipulagða viðburði á dagskrá fram að kappræðunum og minnir undirbúningur hennar á undirbúning Joe Bidens Bandaríkjaforseta áður en hann mætti Trump í júní.

Kamala harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata.
Kamala harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata. AFP/Joseph Prezioso

Tulsi Gabbard undirbýr Trump

Á sama tíma hefur Donald Trump sagt að hann sé að undirbúa sig fyrir kappræðurnar eins og hann gerði fyrir kappræðurnar á móti Biden, með því að mæta í viðtöl, halda kosningafundi og ræða við ráðgjafa um ýmis mál.

Þó hann segi það ekki opinberlega þá er ekki ólíklegt að hann se að undirbúa sig nokkuð ítarlega fyrir kappræðurnar enda mikið í húfi.

Sem dæmi má nefna að í undirbúningsteymi Trump er Tulsi Gabbard sem mætti Harris í kappræðum í forvali demókrata fyrir síðustu kosningar. Frægt er þegar Tulsi Gabb­ard las henni pist­il­inn í einum kapp­ræðunum og átti Harris erfitt uppdráttar í kjölfarið.

Tulsi Gabbard, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í forvali demókrata.
Tulsi Gabbard, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í forvali demókrata. AFP

Fáir jafn sjóaðir og Trump

Trump er ekki þekktur fyrir mikinn aga í kappræðum sem hefur komið honum í klandur áður.

Repúblikanar vonast þó til þess að hann undirbúi sig vel og einbeiti sér að málefnunum, en hann mælist almennt með meira traust meðal Bandaríkjamanna til að sjá um efnahagsmál og útlendingamál heldur en Harris.

Fáir eru jafn sjóaðir í forsetakappræðum og Trump og því ekki ólíklegt honum muni líða nokkuð þægilega á stóra sviðinu. Líklega mun hann einblína á útlendingamálin og efnahagsmálin eins og í síðustu kappræðum.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana. AFP/Mandel Ngan

Mun líklega hampa fyrri störfum sem saksóknari

Kamala Harris er fyrir mörgum Bandaríkjamönnum enn nokkuð óþekkt og mörgum þykir óljóst hvað hún stendur fyrir nákvæmlega.

Hún mun væntanlega einblína á fóstureyðingarmálin sem hefur reynst repúblikönum nokkuð erfitt mál meðal kvenkyns kjósenda.

Harris var á árum áður yf­ir­sak­sókn­ari í San Francisco og síðar rík­is­sak­sókn­ari í Kali­forn­íu árið 2010. Í kosningabaráttu sinni hefur Harris reynt að mála þá mynd að hún sé saksóknarinn á móti glæpamanninum. 

Væntanlega mun hún reyna að mála svipaða mynd í kappræðunum með því að vísa í fyrri störf sem saksóknari og benda á dómsmálin sem Trump hefur þurft að glíma við.

Slökkt á hljóðnemum

Engir áhorfendur verða í salnum og þá verður slökkt á hljóðnemum þegar hinn frambjóðandinn er með orðið. 

Frambjóðendur mega ekki ræða við ráðgjafa í auglýsingahléum og þeir mega ekki mæta með neina muni. Þó verður leyft þeim að vera með blað og penna fyrir framan sig. 

ABC News

AP News

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert