Harris tekur fram úr Trump í kjörmannakerfinu

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, hefur tekið fram úr Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, í kjörmannakerfi Bandaríkjanna. Þá leiðir hún einnig í fylgismælingum á landsvísu.

Blaðamaðurinn Hermann Nökkvi Gunnarsson fór yfir nýjustu tölur RealClearPolitics í Spursmálum og eins og hann bendir á þá er munurinn á Harris og Trump vart marktækur í sveifluríkjunum sjö.

Til þess að vinna forsetakosningar í Bandaríkjunum þarf 270 kjörmenn af 538. Kamala Harris er með 273 kjörmenn samkvæmt meðaltali RealClearPolitics á sama tíma og Trump er með 265.

Leiðir með 0,1% í Georgíu

Harris leiðir í ríkjunum Nevada, Georgíu, Michigan og Wisconsin.

Trump leiðir í Arizona, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu. Miðað við hversu lítill munur er á fylgi frambjóðendanna í sveifluríkjunum þá gæti verið komin allt önnur mynd á stöðuna á næstu dögum.

Sem dæmi má nefna að Harris leiðir með 0,1% í Georgíu og 0,6% í Nevada.

Hér má sjá fylgismuninn í sveifluríkjunum.
Hér má sjá fylgismuninn í sveifluríkjunum. Graf/RealClearPolitics

Hægt að gera jafntefli þó það sé mjög ólíklegt

Í byrjun vikunnar þá mældist Harris á tímapunkti með fylgi sem myndi skila henni 270 kjörmönnum og myndi hún þá vinna með minnsta mögulega mun í kjörmannakerfinu, ef það yrði niðurstaðan.

Harris var að mælast með forskot í Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu á sama tíma og Trump var að mælast með forskot í Nevada, Arizona, Georgíu og Norður-Karólínu.

Hermann benti á til gamans að fræðilega gæti niðurstaðan orðið jafntefli í kjörmannakerfi Bandaríkjanna. Það væri þó einstaklega ólíklegt.

Ef Harris myndi vinna Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu og Trump myndi vinna hin fjögur sveifluríkin ásamt öllum fimm kjörmönnum Nebraska – fastlega er gert ráð fyrir að Harris vinni einn kjörmann í því ríki – þá fengju báðir frambjóðendur 269 kjörmenn.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

Nebraska úthlutar kjörmönnum öðruvísi

Nebraska er eitt af tveimur ríkjum sem úthlutar ekki alla sína kjörmenn til þess frambjóðanda sem fær flest atkvæðin í ríkinu.

Fimm kjörmenn eru til boða í Nebraska og tveir af þeim fara til þess frambjóðanda sem fær flest atkvæði í ríkinu. Hinir þrír tilheyra allir sér kjördæmi og fara til þess frambjóðanda sem sigrar í þeim kjördæmum.

Repúblikanar fá að lágmarki fjóra af þessum fimm kjörmönnum en 2. kjördæmi í Nebraska er nokkuð sveiflukennt. Trump vann þar árið 2016 og fékk því alla fimm kjörmenn ríkisins, en Joe Biden vann 2. kjördæmi Nebraska árið 2020.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna. AFP/Jeff Kowalsky

Bandaríkjaþing myndi velja forseta og varaforseta

Ef svo færi að báðir frambjóðendur enduðu með 269 kjörmenn þá væri það komið undir Bandaríkjaþingi að velja forseta og varaforseta.

Fulltrúadeildin myndi velja forseta og myndi meirihluti þingmanna frá hverju ríki ákveða hvernig þeirra ríki ráðstafar sínu atkvæði. Öldungadeildin myndi svo velja varaforseta.

Þetta hefur þó ekki gerst síðan árið 1824 og eru sáralitlar líkur á því að kosningarnar fari á þennan veg í ár.

Grím­ur Atla­son, fram­kvæmda­stjóri Geðhjálp­ar, og Tryggvi Hjalta­son, formaður hug­verkaráðs og höf­und­ur ný­legr­ar skýrslu um stöðu drengja í ís­lensku mennta­kerfi, sátu fyr­ir svör­um í nýj­asta þætti Spurs­mála sem sýnd­ur var í streymi hér á mbl.is fyrr í dag.

Upp­töku af þætt­in­um má sjá í spil­ar­an­um hér að neðan, á Spotify og YouTu­be og er hún öll­um aðgengi­leg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert