Geimfarið sneri mannlaust til baka

Starliner geimfarið sneri aftur til jarðar í morgun.
Starliner geimfarið sneri aftur til jarðar í morgun. AFP

Geimfarið Boeing Starliner sneri aftur til jarðar í morgun á meðan að geimfararnir tveir sem upphaflega stóð til að farið myndi flytja sitja fastir í alþjóðlegu geimstöðinni þar sem þeir hafa verið í 93 daga.

Geimfarið sem er á vegum NASA, Geim­ferðastofn­un Banda­ríkj­anna, stýrði sér sjálft til jarðar.

Þegar það tók upphaflega af stað út í geimstöðina í vor kom í ljós bilun í þrýstihreyfli vélarinnar og ekki var talið öruggt að fljúga því mönnuðu aftur til jarðar.

Því dvelja geim­far­arn­ir Barry „Butch“ Wilmore og Sunita „Suni“ Williams enn í geimstöðinni, rúmum þremur mánuðum síðar, en upphaflega stóð til að þau myndu verja 8 dögum þar.

Átta dagar að átta mánuðum

Svo virðist vera að dvöl þeirra þar sé aðeins rétt að byrja því að samningar hafa nást við fyrirtækið SpaceX, einn helsta keppinaut Boeing, um að flytja geimfarana aftur til jarðar í svokölluðu Crew Dragon-fari en það verður ekki gert fyrr en í febrúar.

Dagarnir átta verða því að átta mánuðum.

Eftir heimkomu Starliner sagði talsmaður Nasa að hann væri ánægður með vel heppnaða lendingu en hann vildi þó óska að hún hefði farið eins og upphaflega var áætlað.

Flugið til baka frá geimstöðinni tók sex klukkustundir. Eftir að geimfarið kom inn í lofthjúp jarðar voru fallhlífar notaðar til að hægja á hraða þess og lenti það í White Sands geimhöfninni í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum klukkan 23.01 að staðartíma, 5.01 að íslenskum tíma í morgun.

Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore hafa dvalið í geimstöðinni …
Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore hafa dvalið í geimstöðinni mun lengur en upphaflega stóð til vegna bil­unar sem kom í ljós í þrýstiafls­hreyfli geimskutl­unn­ar Starliner. AFP

Í góðu yfirlæti

Áður hafði NASA gefið út að Butch og Suni væru í góðu yfirlæti og í reglulegu sambandi við fjölskyldur sínar.

Þá sagði Steve Stich, yfirmaður hjá nasa NASA, að báðir geimfararnir hefðu brennandi áhuga á starfi sínu.

„Þau skilja mikilvægi þess núna að halda áfram og koma farartækinu til baka á öruggan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert