46 konum neitað um þungunarrof

Þungunarrofsmál, frelsi kvenna á þeim vettvangi og aðkoma ríkisvaldsins eru …
Þungunarrofsmál, frelsi kvenna á þeim vettvangi og aðkoma ríkisvaldsins eru áratugagömul þrætuepli í Noregi. Myndin sýnir kröfugöngu í Bergen 8. mars 1977. Ljósmynd/Jan M. Lillebø

Undangengin fimm ár hafa rúmlega 2.000 konur komið fyrir þungunarrofsnefndir norska heilbrigðiskerfisins og af þeim hefur 46 verið neitað um að gangast undir aðgerðina.

Framangreindar nefndir starfa lögum samkvæmt ein í hverju fjögurra heilbrigðisumdæma Noregs og úrskurða um hvort þungaðri konu leyfist að gangast undir aðgerð sé hún gengin tólf til átján vikur með.

Nú deila stjórnmálamenn landsins um frumvarp til nýrra laga um þungunarrof og breytingu á núverandi skipan með þeim hætti að hver kona eigi nú sjálfdæmi um þungunarrof til og með átjándu viku meðgöngu – eftir að svo langt er gengið með komi hins vegar til kasta nefndanna.

Nefndin hrein martröð

Lífshættulegur hjartagalli og fleiri alvarlegir kvillar komu í ljós á sautjándu viku meðgöngu í fóstri er Anette Garpestad gekk með. Hún ákvað að gangast undir þungunarrof eftir að heilbrigðisstarfsfólk tjáði henni að nánast væri borin von að afkvæmi hennar gæti átt sér líf utan líkama móðurinnar. Nefndin reyndist Garpestad hrein martröð.

„Okkur grunaði aldrei að eitthvað gæti verið að,“ segir Garpestad sem féllst á viðtal við norska ríkisútvarpið NRK um píslargöngu sína. „Ég hafði ekki heyrt annað en að kæmistu yfir viku tólf yrði allt í lagi,“ heldur hún áfram.

„Til að hljóta leyfi til þungunarrofs rannsakar nefndin í upphafi hvort það sé einbeittur vilji konunnar,“ útskýrir Birgitte Heiberg Kahrs kvensjúkdómalæknir sem sæti á í einni nefndanna fjögurra.

Næst fjalli nefndin um hvort skilyrðin til þungunarrofs séu uppfyllt – fósturgalli, sjúkdómsástand móður eða þungbær lífsskilyrði.

Skipta um skoðun eða halda utan

Synji nefnd um þungunarrof gefst umsækjanda kostur á að kæra ákvörðunina til fimm manna kærunefndar sem er ein fyrir allt landið. Að sögn Mette Løkeland Stai, yfirlæknis hjá þungunarrofsskrá, bárust kærur aðeins frá tæpum helmingi þeirra 46 kvenna sem synjað hefur verið um þungunarrof síðustu fimm ár.

„Við gerum því skóna að það sé annaðhvort vegna þess að þær hafi skipt um skoðun ellegar látið framkvæma aðgerðina erlendis,“ segir yfirlæknirinn en kærunefndin hefur aðeins synjað þremur konum, sem gengnar voru allt að átján vikur með fóstur sitt, um aðgerð í kjölfar þess er þær kærðu synjun umdæmisnefndar.

Norski heilbrigðis- og velferðarráðherrann Jan Christian Vestre ávarpar blaðamannafund og …
Norski heilbrigðis- og velferðarráðherrann Jan Christian Vestre ávarpar blaðamannafund og kynnir lagabreytingatillögur ríkisstjórnarinnar í þungunarrofsmálum í Marmarahöllinni í Ósló 23. ágúst. AFP/Thomas Fure

Garpestad segir nánar af nefndarsamskiptum sínum: „Ég var í áfalli, ég varð alveg dofin. Mér leið eins og ég væri í prófi,“ rifjar hún upp, „mér var gert að gera grein fyrir því að ég skildi hvers konar ákvörðun ég væri að taka og hvers vegna ég tæki hana,“ segir hún frá, en Garpestad hlaut náð fyrir augum nefndarinnar og gekkst undir þungunarrof í nítjándu viku meðgöngu.

Í viðtali við Morgenbladet kvaðst hún engum óska þess að fara gegnum þá reynslu og klykkti út með þeim dómi að ákvörðunin hefði verið hryllilega erfið, en rétt.

Ekki óumdeilt

Sem fyrr segir vill norska ríkisstjórnin nú breyta lagabókstafnum þannig að konur geti sjálfar tekið ákvörðun – án aðkomu nefndar – um þungunarrof til og með átjándu viku. Eftir það þurfi nefnd að taka málið fyrir en stefna norskra stjórnvalda er að færri og fjölmennari nefndir komi að ákvörðuninni.

Málið er þó langt í frá óumdeilt. Vinstriflokkarnir fylgja sjálfræðinu allir sem einn, og Rautt og Sósíalíski vinstriflokkurinn vilja hækka markið og leyfa konum að ráða heilar 22 fyrstu vikur af fósturþroska hvort þær bindi endi í þungunina. Aðrir vinstriflokkar segja átján vikur.

Hins vegar eru Framfaraflokkurinn, Hægri, Miðflokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn sem vilja halda sig við gildandi löggjöf, nefnd eftir tólf vikna meðgöngu.

„Það er ekki erfitt að sjá að þessar konur eru …
„Það er ekki erfitt að sjá að þessar konur eru með böggum hildar,“ segir Inger Økland, formaður kærunefndar þungunarrofsmála. Ljósmynd/Háskólinn í Stavanger

Inger Økland er formaður kærunefndar þungunarrofsmála og hefur tekið á móti fjölda þungaðra kvenna sem óska eftir aðgerð. „Það er ekki erfitt að sjá að þessar konur eru með böggum hildar. Þær eru settar í aðstæður sem þær sáu kannski aldrei fyrir að þær gætu hafnað í,“ segir formaðurinn.

Anette Garpestad á lokaorðin: „Málið var ekki þannig vaxið að ég vildi ekki eiga barnið,“ segir hún, „ég þráði ekkert heitar. Að þér sé þá gert að sitja og ræða það er hreinlega grimmilegt.“

NRK
NRKII (farið gegnum mörg þungunarrof)
Aftenposten
Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert