„Ekki séð stöðuna í heiminum verri en nú“

Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International.
Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Amnesty International, Agnès Callamard, segir heiminn standa frammi fyrir stórfelldu og átakanlegu neyðarástandi í dag. Staða mannréttinda sé sögulega þung að hennar mati.

Agnès er stödd á Íslandi um þessar mundir í tilefni 50 ára afmælis Íslandsdeildar Amnesty International og ræddi við blaðamann mbl.is. Var hún sérstakur gestur á málþingi samtakanna í Norræna húsinu í gær.

Staðan aldrei verri en nú

„Á mínum 20 árum í mannúðarstörfum hef ég ekki séð stöðuna í heiminum verri en nú. Ég tel okkur vera að falla í eins konar hyldýpi um þessar mundir og mjög fá leiðtogaöfl virðast ætla að leiða okkur út úr því,“ sagði Agnès.

Sagði hún alþjóðakerfið að þrotum komið og ekki þjóna þeim tilgangi sem því væri ætlað, þ.e. að standa vörð um mannréttindi og taka á stríðsglæpum.

Það sjáist einna best í stofnunum á borð við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem stórveldin þrjú, Bandaríkin, Rússland og Kína, hafi neitunarvald sem þau beiti iðulega. Ríkin telji mannréttindasáttmálann einfaldlega ekki eiga við um sig og þá mannúðar- og stríðsglæpi sem þau fremji eða eigi aðild að.

Rannsaka þjóðarmorð

Það sé hvergi jafn augljóst og í tilfelli ástandsins á Gasasvæðinu og framferði Ísraelsmanna þar enda sé mannfallið og eyðileggingin af slíkri stærðargráðu að annað eins hafi ekki sést lengi. Segir Agnès glæpi Ísraels gegn Palestínu nánast fordæmalausa.

Amnesty International rannsaki ýmis og nánast fordæmalaus mannréttindabrot þar um þessar mundir – þar á meðal mögulegt þjóðarmorð, sem tölur bendi vissulega til að eigi sér stað þar um þessar mundir.

Það sé aftur á móti hægara sagt en gert enda fáir sem fái aðgengi inn á svæðið sökum takmarkana af hálfu Ísraelsríkis. Það sé deginum ljósara að Ísrael fremji stríðsglæpi á Gasasvæðinu. Stríðsglæpir Hamas-samtakanna 7. október afsaki ekki það framferði.

„Allsherjarþingið hefur krafist vopnahlés, fólkið hefur gengið um götur til krefjast vopnahlés, mannúðarsamtök krefjast þess að komast inn á Gasa. Við stöndum nú frammi fyrir þeirri ógn að lömunarveikisfaraldur brjótist þar út og heilbrigðisfulltrúar fara fram á að því verði tekið af alvöru,“ segir Agnès.

„Stjórnvöld nokkurra landa eru að reyna að ýta á eftir sterkari pólitískum lausnum en svo fremur sem Bandaríkin halda áfram að verja Ísrael og halda áfram að veita þeim vopn eru möguleikarnir á aðgerðum afar takmarkaðir,“ segir Agnès.

Segir Agnès glæpi Ísraels gegn Palestínu nánast fordæmalausa.
Segir Agnès glæpi Ísraels gegn Palestínu nánast fordæmalausa. AFP/Eyad Baba

„Við ætlum ekki að gefast upp“

Hún viðurkennir að Amnesty International standi frammi fyrir gríðarlegum áskorunum þegar komi að Gasa.

Það þýði aftur ekki að örvænta heldur hyggist samtökin halda áfram að beita sér með þeim hætti sem þeim sé unnt, þar á meðal beita þrýstingi um virðingu fyrir alþjóðalögum og séu sömuleiðis í virkum samtölum við Alþjóða stríðsglæpadómstólinn.

„Við ætlum ekki að gefast upp. Við vitum að alþjóðalögin eru okkar megin og að meirihluti heimsins vill frið," segir hún og bætir við að almenningur krefjist réttlætis fyrir Palestínumenn,“ segir Agnès.

„Það er það sem við þurfum að gera og halda áfram að láta raddir okkar heyrast, mótmæla og láta fólk og Palestínumenn vita að við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur.“

Óttast að mótmæli færist í öfgar

Hún kveðst óttast að aðgerðarleysi alþjóðasamfélagsins og þjóðarleiðtoga við að taka skýrari afstöðu gegn glæpum Ísraels ýti áhyggjufullum borgurum og vanmáttugum mótmælendum út í öfgar.

„Ég óttast að vegna þess að öllum okkar löglegu aðgerðum hefur verið mætt með múrvegg þá hugsi fólk: Þetta er ekki að virka. Ég þarf að gera eitthvað áhrifaríkara og öfgafyllra.“

Mikilvægt sé að verja og virða rétt fólks til að mótmæla og hlusta á þá gríðarstóru hreyfingu í heiminum sem hafni og fordæmi framferði Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum, þróun sem hún hafi miklar áhyggjur af.

Amnesty International hafi því tekið skref til að styðja við skipulagðar aðgerðir er lúta að borgaralegri óhlýðni í pólitískum tilgangi, enda sé það réttur fólksins þegar stjórnvöld gangi þvert á óskir samfélagsins.

Mikilvægt er að verja og virða rétt fólks til að …
Mikilvægt er að verja og virða rétt fólks til að mótmæla og hlusta á þá gríðarstóru hreyfingu í heiminum sem hafni framferði Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum að sögn Agnèsar. AFP/MICHAEL A. MCCOY

Maraþon ekki 100 metra hlaup

Hún mælist þó ávallt til þess að mótmælendur, aðgerðarsinnar og mannúðarsinnar haldi áfram af þrautseigju og yfirvegun án þess að grípa til ofbeldis. Það sé að hennar mati aldrei svarið enda geri fólk lítið gagn á bak við lás og slá.

Spurð um ráð til ungra aðgerðarsinna segir Agnes fólk ekki mega örvænta eða leyfa aðgerðarleysi stjórnvalda að ýta sér út í öfgar. Betra sé að beita sér með skipulögðum og friðsamlegum hætti til að knýja fram breytingar.

„Við þurfum að vera hluti af einingu, við getum ekki gert þetta ein. Við þurfum að huga að andlegri heilsu okkar og velferð því þetta er maraþon, ekki 100 metra hlaup.“

„Við þurfum að vera klók því það eru öfl að reyna að bæla niður raddir okkar. Við þurfum að greina hlutina og ekki vera of hvatvís. Við þurfum að skipuleggja með svipuðum hætti og mótmælendur gerðu á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert