Kalla eftir aðgerðum eftir að drengir létust

Þýsku drengirnir sem létust í fjörunni voru níu og tólf …
Þýsku drengirnir sem létust í fjörunni voru níu og tólf ára. AFP

Heimamenn í bænum Thisted á Jótlandi hafa kallað eftir betri strandvörnum í fjörunni Nørre Vorupør eftir að tveir þýskir drengir létust þar í lok ágúst.

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Drengirnir, níu og tólf ára, létust eftir að þeir grófust í sandi í fjörunni. Þar voru þeir við leik og voru að grafa göng við flæðamálið þegar þau lokuðust skyndilega. Fólk sem var á ströndinni hóf þegar leit að drengjunum og tókst að grafa þá upp 40 mínútum síðar.

Frumrannsókn lögreglu benti til þess að drengirnir hefðu stundað ein­hvers kon­ar upp­gröft og ef til vill grafið helli inn í san­döld­ur á svæðinu. Hafi það svo leitt til hruns í hellinum.

Björgunarsveitamaðurinn Per Olesen er einn þeirra sem kallar eftir frekari vörnum en hann var á staðnum er drengirnir fundust á kafi í sandinum.

Benti hann á fjórar nýjar sandskriður sem myndast höfðu nýlega á sandöldusvæði fjörunnar og lýsti hann undrun sinni á því hvers vegna yfirvöld gerðu ekki meira til að láta vita að það væri lífshættulegt að leika sér á sandöldunum.

Atburðurinn gæti endurtekið sig

Segir hann að erlendir einstaklingar, þ.á.m. krakkar, komi í fjöruna og fari að grafa, sem skapi hættulegar aðstæður. Segir hann að þörf sé á strandvörnum og að atburðurinn gæti endurtekið sig. 

„Það ætti eitthvað að gera varðandi þetta vandamál áður en það kostar fleiri líf,“ segir Olesen.

Tekur hann fram að heimamenn hafi verið aldnir upp vitandi af þeirri hættu sem felst í að leika sér á sandöldunum en að Þjóðverjar sem heimsæki t.a.m. svæðið séu ekki meðvitaðir um hættuna.

Bæjarstjórn Thisted hefur tilkynnt að engin áform séu um að setja upp strandvarnir eða breyta bryggjunni. Hins vegar verður skoðað hvort upplýsa eigi ferðamenn í framtíðinni betur um áhættuna sem fylgir því að ferðast um svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert