Í ákveðinni kúlu sem útlendingur

Stígvél flýtur um flóðasvæði í Atzenbrugg im Tullnerfeld í Austurríki …
Stígvél flýtur um flóðasvæði í Atzenbrugg im Tullnerfeld í Austurríki í dag. Minnst ellefu manns eru látnir í miðevrópsku hamfaraveðri. AFP/Helmut Fohringer

„Hér flæddi nú 2012 líka og þá flæddi inn í hverfið hjá mér, svo maður hefur alltaf vitað af þessari hættu, svo voru hérna mikil flóð 2001 líka,“ segir Almar Örn Hilmarsson, fjárfestir, lærifaðir frumkvöðla og dagskrárgerðarmaður í tékknesku höfuðborginni Prag, en stormurinn Boris hefur gert mikla skráveifu í Mið-Evrópu síðustu daga.

Hafa ár flætt yfir bakka sína, stíflur brostið og rafmagn brugðist síðustu daga og ellefu manns látið lífið í illviðrinu.

„Vltava, eða Moldá, er 450 kílómetra löng þannig að í hana safnast mjög mikið. Hér rigndi ekki með neinu öfgakenndu úrhelli, þetta er í raun eins og eftir fimm daga af íslensku rigningasumri kæmi flóð, það væri nú dálítið kaldhæðnislegt, þetta var bara eins og íslensk rigning og rok en það hefur auðvitað áhrif þegar áin er svona löng,“ segir Almar.

Grettistaki lyft í vatnsmiðlun

Hann segir ráðstafanir þegar hafa verið gerðar á fimmtudag og föstudag í Prag þar sem árbakkarnir eru lægri og útikaffihús í grennd. „Ég bý nú alveg við árbakkann þannig að ég horfi á þetta út um gluggann og þar þarf nú alveg þrjá-fjóra metra til að fari að flæða yfir árbakkann,“ heldur hann áfram.

Almar Örn Hilmarsson hefur búið í Prag í Tékklandi um …
Almar Örn Hilmarsson hefur búið í Prag í Tékklandi um langt árabil og þekkir orðið vel til tékknesks þjóðfélags. Ljósmynd/Aðsend

Síðustu ár hafi grettistaki verið lyft milli flóða í vatnsmiðlun og stýringu á vatni sem geri það að verkum að farið hafi verið að hleypa úr stíflum þegar í síðustu viku til að draga úr áhrifum flóðanna en auðvitað eru svæðin fyrir utan Prag öðruvísi stödd og þar hafa þorp farið á kaf. Á einhverjum stað er eitt staðfest andlát og sjö saknað og áþekkar tölur heyrast frá fleiri stöðum en manni hefur þó sýnst fólk vera frekar vel undirbúið,“ segir Almar sem er lögfræðingur að mennt og hefur fengist við ólík viðfangsefni á vinnumarkaði síðan hann flutti til Prag fyrir fimmtán árum.

„Sem útlendingur hérna er maður inni í ákveðinni kúlu og ég á ekki ömmu eða frænku uppi í sveit þar sem allt er á kafi en strax í dag hefur fólk tekið höndum saman og hafið safnanir fyrir bágstadda. Þetta er meira og minna að ganga niður, hér rigndi hvorki í dag né í nótt,“ segir Almar og játar aðspurður að hamfarirnar séu stórviðburður á austur- og suðursvæðunum.

Mestu rigningar í 50 ár

Mikið rok hafi fylgt regninu og tré víða rifnað upp með rótum. Tékknesk hús séu síður hönnuð fyrir mikið rok en hús í Vestur- og Norður-Evrópu og milljónir heimila séu í landinu. „Þetta hefur auðvitað áhrif og hér eru mörg hús sem ekki verður búið í næsta árið eða tvö árin. En fólk er tiltölulega rólegt yfir þessu þótt hér sé um mestu rigningar í 50 ár að ræða. Menn hafa gert mjög vel í flóðavörnum hérna, eitthvað verður að gera svo hlutirnir verði ekki verri en þeir eru,“ segir Almar.

„Þegar flæddi hérna 2001 tók jarðvegurinn ekki við yfirborðsvatni, held ég, sel það reyndar ekki dýrar en ég keypti það. Við vorum að koma úr 30 stiga hita og viku seinna vorum við komin í 17 stig og rigningu þannig að jarðvegurinn hefur líklega tekið við miklu núna.“

Er samstaða tékknesku þjóðarinnar jafn mikil og þeirrar íslensku, stendur þjóðin saman sem einn maður þegar skórinn kreppir?

„Já já, fólk er mjög meðvitað um þetta og maður heyrir spurt um hvort ekki sé í lagi með íbúa í þessu þorpi og á þessum stað. Þetta getur auðvitað gert alls staðar og á svæðum úti á landi hefur fólk minna milli handanna. Hér eru margar safnanir í gangi og það er samhugur í svona aðstæðum hérna,“ segir Almar Örn Hilmarsson, fjárfestir í Prag, um ástandið sem geisað hefur í hans heimahögum síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert