„Þetta er ekki búið“

Loftmynd sem var tekin í bænum Glucholazy í suðurhluta Póllands …
Loftmynd sem var tekin í bænum Glucholazy í suðurhluta Póllands í gær, sem sýnir hvernig bærinn hefur farið á kaf. AFP

Stormurinn Boris hefur valdið miklum usla í Mið-Evrópu, en víða hafa stíflur brostið, rafmagn slegið út og alls hafa 11 látið lífið af völdum veðurofsans. Sum svæði hafa að auki verið innilokuð í fjóra daga. 

Frá því á föstudag hefur verið mjög hvasst og óvanalega mikil úrkoma í Austurríki, Tékklandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóvakíu. 

„Ég hef búið hér í 16 ár og ég hef aldrei orðið vitni að öðrum eins flóðum,“ segir Judith Dickson, en hún býr í bænum Sankt Pölten í Austurríki. 

Frá þorpinu Rudawa í Póllandi.
Frá þorpinu Rudawa í Póllandi. AFP

Heilu hverfin undir vatni

Víða hafa heilu hverfin farið á kaf. Þá hefur úrkoman og óveðrið lamað almenningssamgöngur og slegið út rafmagn. 

Tveir einstaklingar, annar þeirra sjötugur og hinn áttræður, fundust látnir á heimilum sínum í tveimur hverfum í Neðra-Austurríki að sögn lögreglu. Það svæði, sem er í norðausturhluta landsins, hefur orðið einna verst úti. 

Þá lést slökkviliðsmaður um helgina þegar hann var við björgunarstörf. 

„Ég á lítil börn. Þau voru svo glöð og tóku allt saman til að gera eitthvað skemmtilegt í garðinum. En nú er allt saman ónýtt,“ segir Sigrid Kohl, sem býr í þorpinu Kamegg.

Bifreið á kafi.
Bifreið á kafi. AFP

12 stíflur hafa brostið

Alls hafa 12 stíflur brostið og ár hafa flætt yfir bakka sína. Mörg þúsund heimili eru án rafmagns og neysluvatns. 

Þá eru nokkur svæði enn lokuð. Þyrlur hafa sótt strandaglópa sem náðu að komast upp á húsþök til að forðast vatnselginn. 

„Þetta er ekki búið. Staðan er alvarleg,“ segir Johanna Mikl-Leitner, ríkisstjóri Neðra-Austurríkis. Hún bætir við að sú hætta sé enn fyrir hendi að fleiri stíflur bresti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert