„Réttlætisaðgerð fyrir fjölda fórnarlamba hans“

Biden segir að markmiðið sé áfram að draga úr átökum.
Biden segir að markmiðið sé áfram að draga úr átökum. AFP/Saul Loeb

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að drápið á Hassan Nasrallah, leiðtoga Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna, sé réttlætisaðgerð fyrir fórnarlömb hryðjuverkaleiðtogans.

„Hassan Nasrallah og hryðjuverkasamtökin sem hann leiddi, Hisbollah, báru ábyrgð á því að hundruð Bandaríkjamanna létu lífið í fjögurra áratuga hryðjuverkavargöld. Dauði hans í loftárás Ísraela er réttlætisaðgerð fyrir fjölda fórnarlamba hans, þar á meðal þúsundir Bandaríkjamanna, Ísraela og líbanskra borgara,“ sagði Biden í yfirlýsingu. 

Biden minnti á það að það voru Hisbollah-samtökin sem ákváðu að fyrra bragði að ráðast á Ísrael 8. október til stuðnings Hamas-hryðjuverkasamtakanna.

Markmiðið að draga úr átökum

Hann sagði að Bandaríkin myndu áfram styðja við rétt Ísraels til að verja sig gegn Íran og undirsátum þess í Mið-Austurlöndum eins og Hisbollah, Hamas, uppreisnarhóp Húta í Jemen og fleiri samtökum.

„Að lokum er markmið okkar að draga úr átökunum á Gasa og í Líbanon með diplómatískum leiðum. Á Gasa höfum við unnið að samningi sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur stutt um vopnahlé og lausn gísla. Í Líbanon höfum við unnið að samningi sem myndi tryggja að fólk gæti snúið heilu og höldnu til síns heima í Ísrael og suðurhluta Líbanons.

Það er kominn tími til að þessir samningar náist, að ógnum við Ísrael linni og að aukinn stöðugleiki náist í Mið-Austurlöndum,“ sagði Biden í yfirlýsingu.

Hryðjuverkaleiðtoginn Hassan Nasrallah var drepinn í gær í loftárás Ísraelsmanna.
Hryðjuverkaleiðtoginn Hassan Nasrallah var drepinn í gær í loftárás Ísraelsmanna. AFP

Íran, Rússland og Sýrland fordæma drápið

Ríki eins Íran, Rússland og Sýrland hafa fordæmt drápið á Nasrallah ásamt palestínskum stjórnvöldum á Vesturbakkanum.

Samtök eins og Hamas og Hútar hafa einnig fordæmt drápið.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að hann hafi verulegar áhyggjur af stigmögnun átaka á svæðinu í kjölfar drápsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert