Eyðilegging á „biblíulegum skala“

Að minnsta kosti 30 hafa látist og fjölmargra er saknað í einni sýslu í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Helena gekk yfir ríkið með tilheyrandi usla. 

„Eyðileggingin er á biblíulegum skala,“ segir Ryan Cole, sem starfar hjá almannavörnum í Buncombe-sýslu, sem varð illa úti. „Þetta eru umfangsmestu náttúruhamfarir sem við höfum nokkru sinni séð.“

Bátur sést hér eins og fiskur á þurru landi í …
Bátur sést hér eins og fiskur á þurru landi í Keaton Beach í Flórída. AFP

Að minnsta kosti 116 hafa látist á landsvísu eftir að fellibylurinn gekk á land á Flórída á fimmtudag. Bandaríska fréttastofan CBS reiknar með að sú tala eigi eftir að hækka.

Loftmynd sem sýnir hvernig heimili eyðilagðist eftir að tré féll …
Loftmynd sem sýnir hvernig heimili eyðilagðist eftir að tré féll á það. í Valdosta í Georgíu. AFP

Gekk yfir fimm ríki

Helena hafði náð styrk fellibyls þegar hún gekk á land á Flórída. Óveðrið færði sig svo norður til Georgíu, Suður- og Norður-Karólínu og til Tennessee.

Flestir hafa látið lífið í Norður- og Suður-Karólínu þar sem dregið hafði úr styrk Helenu sem mældist þá vera hitabeltisstormur.

Yfirvöld í Norður-Karólínu greindu frá því í gærkvöldi að 30 hefðu látist Buncombe-sýslu, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.

Þessi Sunoco-bensínstöð í Perry í Flórída hefur séð betri daga.
Þessi Sunoco-bensínstöð í Perry í Flórída hefur séð betri daga. AFP

Rafmagns- og símasambandslaust víða

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna vinnur nú að því að koma rafmagni og símasambandi aftur á. Víða hafa tré fallið í óveðrinu og mörg hundruð vegir hafa lokast.

Eyðileggingin hefur verið mikil og hafa sumir íbúar misst heimili sín. Þá er ekki vitað um afdrif um 1.000 íbúa í Buncombe-sýslu. Fólk vinnur nú að því að reyna að hafa uppi á vinum og vandamönnum en það hefur gengið örðuglega þar sem símasamband er stopult.

Skemmdirnar eru gríðarlegar.
Skemmdirnar eru gríðarlegar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert