Minnst 80 börn látin og hundruð særð

Yfir 300 þúsund börn hafa þurft að flýja heimili sín …
Yfir 300 þúsund börn hafa þurft að flýja heimili sín í Líbanon. Ljósmynd/UNICEF

Síðastliðna viku hafa að minnsta kosti 80 börn látið lífið í árásum í Líbanon og hundruð særst. Þá hafa milljón einstaklingar neyðst til að flýja heimili sín, þar af rúmlega 300 þúsund börn, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Líbanon. 

Þetta segir Cathrine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu í dag vegna stigmögnunar árása á Líbanon og versnandi stöðu barna í landinu. UNICEF kallar eftir friði og stöðvun árása og átaka.

„Þúsundir barna og fjölskyldna búa nú á götunni eða í tímabundnum skýlum. Mikill fjöldi hefur flúið heimili sín án nauðsynja. Mannúðaraðstæður versna með hverjum klukkutímanum,“ segir Russell.

„UNICEF og samstarfsaðilar okkar eru á vettvangi í Líbanon að ná til barna og fjölskyldna með nauðsynlega og lífsbjargandi aðstoð. Teymi okkar eru að afhenda vatn, sjúkragögn, dýnur, hlý teppi, hreinlætispakka og nýburaaðstoð. Við erum að veita heilbrigðis- og næringarþjónustu, barnavernd, og sálrænan stuðning fyrir börn og fjölskyldurm,“ segir hún jafnframt.

Ljósmynd/UNICEF

Hörmuleg staða barna verður enn verri

Samhliða auknu ofbeldi aukist þörfin fyrir mannúðaraðstoð og frekari stigmögnun átaka og innrás mun gera hörmulega stöðu barna enn verri. Russel segir að allt verði að gera til að forðast það.

„UNICEF heldur áfram að kalla eftir friði og stöðvun árása og átaka. Við ítrekum ákall okkar til allra aðila að börn og nauðsynlegir innviðir njóti verndar og tryggt verði að mannúðarstofnanir geti með öruggum hætti náð til allra þeirra sem á aðstoð þurfa að halda í samræmi við skyldur þeirra gagnvart alþjóðlegum mannréttindalögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert