Sammála um hernaðaraðgerðir í Líbanon

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP/Henry Nicholls

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, hefur lýst yfir stuðningi við Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, eftir að Ísraelsher hóf innrás í Líbanon í gærkvöldi.

Austin varaði írönsk stjórnvöld einnig við alvarlegum afleiðingum ætli þau að ráðast beint á Ísrael til að bregðast við árásum þeirra á vígamenn Hisbollah-samtakanna, sem njóta stuðnings Írans.

Yoav Gallant.
Yoav Gallant. AFP/Jacquelyn Martin

„Við samþykktum nauðsyn árásar til að eyðileggja árásarinnviði meðfram landamærunum til að tryggja að Hisbollah í Líbanon geti ekki gert svipaðar árásir og 7. október á samfélög í norðurhluta Ísraels,“ sagði Austin í tilkynningu á X í gærkvöldi eftir að hafa átt samtal við Gallant.

Gallant hafði áður varað við því að hernaði Ísraels í Líbanon væri ekki lokið þrátt fyrir að Ísraelsher hefði drepið leiðtoga Hisbollah, Hassan Nasrallah, á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert