Danska lögreglan rannsakar tvær sprengingar sem urðu skammt frá sendiráði Ísraels í Kaupmannahöfn.
Enginn særðist í sprengingunum, sem urðu í nótt „mjög nálægt“ sendiráði Ísraels, að sögn Jakobs Hansen, talsmanns lögreglunnar.
„Enginn særðist og rannsókn stendur yfir á vettvangi,“ hafði lögreglan áður sagt á samfélagsmiðlinum X.
Embættismenn fleiri erlendra ríkja starfa í hverfinu þar sem sprengingin varð, eða í Hellerup, norður af Kaupmannahöfn. Á meðal þeirra eru Íran, Taíland, Tyrkland og Rúmenía.
Spennan fyrir botni Miðjarðarhafs hefur aukist mjög að undanförnu. Stutt er síðan Íran skaut flugskeytum til Ísraels og hafa Ísraelsmenn heitið hefndum.