Bretar sleppa takinu á Chagos-eyjum

Íbúar á Chagos hafa lengi barist fyrir því að Bretar …
Íbúar á Chagos hafa lengi barist fyrir því að Bretar myndu sleppa takinu á eyjunum. Hér má sjá ljósmynd sem var tekin í London árið 2007. Þá komu eyjaskeggjar saman til að mótmæla fyrir utan áfrýjunardómstól í borginni. AFP

Chagos-eyjar í Indlandshafi munu nú lúta stjórn Máritíus eftir að sögulegt samkomulag náðist við bresk stjórnvöld. Þar með hefur verið bundinn endi á áratugalangar deilur. 

Bresk yfirvöld greindu frá þessu í dag. 

Utanríkisráðuneytið segir að Bretar muni þó áfram samkvæmt samkomulaginu reka herstöð á eyjunni Diego Garcia með Bandaríkjamönnum, sem þykir vera hernaðarlega mikilvæg. 

Yfirráð Breta dæmd af þeim

Í ársbyrjun 2021 var greint frá því að Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna hefði dæmt yfirráð Breta á Chagos-eyjum í Indlandshafi af þeim. Gagnrýndi dómstóllinn Breta fyrir að hafa ekki skilað Márítíus eyjunum. Er niðurstaðan sú sama og hjá Alþjóðadómstólnum og meirihluta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Gengu langt í að blekkja almenning

Árið 2012 voru birt bresk skjöl sem sýndu hvað bresk stjórnvöld hefðu gengið langt í viðleitni sinni til að blekkja almenning og breska þingið þegar þau létu Bandaríkjamenn hafa eyjuna Diego Garcia til umráða fyrir herstöð og neyddu íbúana til að fara burt.

Diego Garcia er hluti af Chagos-eyjaklasanum. Þar bjuggu um 1.500 manns, þar af um 500 á Diego Garcia og var fólkið flest flutt til Máritíus og Seychelle-eyja.

Í leyniskjali frá 1966 segir embættismaður breska utanríkisráðuneytisins að markmiðið með því að nota eyjarnar hafi verið að reisa „varnarmannvirki...án hindrana eða pólitísks æsings“.

Árið 1970 sagði ráðuneytið embættismönnum sínum hjá Sameinuðu þjóðunum að lýsa íbúum eyjanna sem farandverkamönnum, sem ráðnir hefðu verið til að vinna á kókoshnetuekrum. „Kosturinn við þá útgáfu erð að þar með er ekki upplýst um tilvist [hinna innfæddu íbúa] en um leið er hún alfarið byggð á staðreyndum,“ segir í tilmælunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert