Melania Trump ver þungunarrof

Melania Trump.
Melania Trump. AFP

Melania Trump, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, lýsir yfir eindregnum stuðningi við réttindi til þungunarrofs í væntanlegum endurminningum sínum, að því er The Guardian greinir frá í dag.

Ummælin eru andstæðar afstöðu eiginmanns hennar, Donalds Trump, en málið er eitt af lykilmálum í bandarísku forsetakosningunum þar sem Trump er í baráttu við Kamelu Harris um forsetastólinn.

Melania Trump segir að brýnt sé að tryggja að konur hafi sjálfræði við að ákveða að þær vilji eignast börn og séu lausar við hvers kyns afskipti eða þrýsting frá stjórnvöldum.

Ummæli hennar eru frábrugðin þeirri skoðun Trumps að ríkjum innan Bandaríkjanna eigi að vera frjálst að ákveða eigin takmarkanir á þungunarrofi.

„Hvers vegna ætti einhver önnur en konan sjálf að hafa vald til að ákveða hvað hún gerir við eigin líkama? Grundvallarréttur konu til einstaklingsfrelsis, á eigin lífi, veitir henni heimild til að binda enda á meðgöngu ef hún vill,“ segir Melania Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert