Gömul kona leikin grátt

Lögreglan í Ósló hefur handtekið sex manns vegna svikabylgju sem …
Lögreglan í Ósló hefur handtekið sex manns vegna svikabylgju sem beinist gegn eldri borgurum, meðal annars máls þar sem þrennt þóttist vera lögreglan og skipaði konu að halda sig innandyra og tala ekki við neinn dögum saman. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

„Ekki hafa samband við neinn og ekki fara út,“ voru skipanirnar sem kona á níræðisaldri í útjaðri norsku höfuðborgarinnar Óslóar fékk frá þremur „lögregluþjónum“, tveimur karlmönnum og konu, og gerðu það að verkum að hún vogaði sér ekki út úr íbúð sinni dögum saman.

Meðan á þessu stóð voru bankareikningar konunnar tæmdir með aðferðum sem lögreglan í Ósló kýs að greina ekki frá opinberlega en ljóst er að konan var blekkt gróflega og stóð allan tímann í þeirri trú að lögreglan væri að ráða henni heilt.

„Konunni var gerð þagnarskylda af fólki sem lést vera lögreglan. Fólkið skipaði henni að halda sig heima í marga daga,“ segir Alexander Bjorvatn Øien, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og segir enn ekki ljóst hvort einhvers konar hótanir, eða jafnvel ofbeldi, hafi verið í spilinu.

Úr, gull og rafmagnstæki

Konan er ekki fyrsta fórnarlamb svindlara sem sitja á svikráðum gagnvart eldra fólki á norska höfuðborgarsvæðinu í haust því lögregla rannsakar nú fjölda mála, um fimmtíu, þar sem eldra fólk hefur með einhverjum hætti verið blekkt til að láta af hendi fjármuni eða gefa upp lykilorð og leyninúmer sem hleypa óprúttnum aðilum í bankainnstæður þeirra.

Nýlegt dæmi er um áttræða konu sem tapaði 100.000 norskum krónum, jafnvirði um 1,3 milljóna íslenskra króna, í hendur svikahrappa og segir lögregla það algengt að svindlararnir kaupi dýr úr, gull og rafmagnstæki fyrir illa fenginn auð sinn.

Svikahrappur kaupir dýran varning fyrir illa fengið fé og gengur …
Svikahrappur kaupir dýran varning fyrir illa fengið fé og gengur klyfjaður út úr verslun. Samsett mynd/Lögreglan í Ósló

Svikamyllan, sem konan er gert var að fara ekki út úr húsi sætti, gengur undir nafninu „Safehouse“-svindl og gengur út á að þorpararnir kveðast vera löggæslufólk. Þeir fara á heimili fólks og gefa til kynna að þeir séu þar því til aðstoðar. Einhver hafi þegar reynt að svíkja fjármuni út úr fórnarlambinu og nú þurfi viðkomandi að fylgja fyrirmælum „lögreglunnar“ út í ystu æsar svo bjarga megi því sem bjargað verður.

Alls hafa 24 eldri borgarar á Óslóarsvæðinu fengið heimsóknir í þessum tilgangi í september einum.

Neitar að sæta yfirheyrslu

„Þetta er ein leið til að notfæra sér traust fólks gagnvart lögreglunni og yfirvöldum,“ segir Øien, „og eins það traust sem við berum hvert til annars.“

Sex manns sitja nú í haldi lögreglunnar í Ósló eftir svikabylgju síðustu vikna, þar á meðal maður á sextugsaldri sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í tvær vikur, en var úrskurðaður í áframhaldandi gæslu í dag – í þetta sinnið í fjórar vikur.

Hann játar ekki sök í svikamálinu og hefur enn sem komið er neitað að sæta yfirheyrslu lögreglu eftir því sem verjandi hans, Malin Storrvik, segir við NRK. „Hann notfærir sér rétt sinn. Við gæsluvarðhaldsþinghaldið í dag sagðist hann geta hugsað sér að ganga til yfirheyrslu síðar,“ segir verjandinn enn fremur.

Saknæm frelsissvipting

Konan, sem fylgdi mönnunum tveimur sem létust vera lögreglan, er enn fremur í haldi lögreglu og hefur játað á sig saknæma háttsemi í einum lið málsins.

Lögregla vill ekki tjá sig um það á þessu stigi málsins hvort hún vænti þess að fleiri verði handteknir vegna svindlsins umfangsmikla en að sögn ákæruvaldsfulltrúans Øiens lítur lögregla málin mjög alvarlegum augum, ekki síst mál konunnar sem hér hefur helst verið til umfjöllunar.

„Lögreglan lítur á fjölda tálmana í málinu sem saknæma frelsissviptingu og þar með brot gegn frelsissviptingarákvæðum hegningarlaganna,“ segir Øien við NRK.

NRK

NRK-II (kaupa dýran varning)

TV2 (þóttist vera komin að gera við sjónvarpið)

Dagsavisen (kváðust vera bankastarfsmenn (2023))

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert