Guðfaðir gervigreindar hlaut Nóbelsverðlaun

Geoffrey Hinton, tölvunar- og vitsmunasálfræðingur, og John Hopfield eðlisfræðingur hlutu í dag Nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir framlag þeirra til gervigreindar.

Rannsóknir mannanna tveggja á tauganetum ruddu veginn fyrir framþróun gervigreindar eins og við þekkjum hana núna. Hinton hefur iðulega verið nefndur guðfaðir gervigreindar.

Á síðasta ári lýsti Hinton áhyggjum yfir framþróun gervigreindar og að erfitt væri að koma í veg fyrir að slæmir menn noti tæknina til að gera slæma hluti.

Hopfield hlaut verðlaunin fyrir net sem ber hans nafn og bjó að þeim eiginleika að geyma og endurbyggja myndir og fleiri mynstur í formi gagna.

Hinton byggði á neti Hopfield við sköpun Boltzmann-vélarinnar, vélar sem var fær um að finna með sjálfkrafa hætti ákveðna eiginleika í gögnum og þar með tilgreint ákveðna eiginleika á myndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert