Upprættu stóran barnaklámshring

Þýska lögreglan lagði hald á um 1.000 terabæt af gögnum …
Þýska lögreglan lagði hald á um 1.000 terabæt af gögnum í aðgerðum sínum. AFP

Lögreglan í Þýskalandi upplýsti í dag að hún hefði náð að loka á gífurlega stóra barnaklámssíðu sem hundruð þúsunda manns höfðu aðgang að. Þá hefur lögreglan handtekið sex manns í tengslum við síðuna.

Haft er eftir lögreglunni í Norðurrín-Vestfalíu að mennirnir sex sem voru handteknir séu á aldrinum 43 til 69 ára og séu grunaðir um að standa á bak við síðuna. Hefur yfirlögregluþjónn lögreglunnar, Kai-Arne Gailer, upplýst að síðan hafi einungis verið notuð til að dreifa klámfengnum myndum af ungum börnum.

Yfirvöld hafa ekki upplýst um hversu mörg fórnarlömb sé að ræða en hafa staðfest að myndirnar sýni eingöngu ungar stúlkur.

Lögregla handtók mennina í stórum aðgerðum víðs vegar um landið í lok september og lagði þá hald á gífurlega mikið barnaníðsefni í leiðinni.

Lögðu hald á gífurlegan fjölda myndefnis

Var lagt hald á 1.517 sönnunargögn, þar á meðal fartölvur, síma og 94 kassa sem voru fullir af kassettum og DVD-diskum.

Ein tölva hinna grunuðu innihélt 13,5 terabæt (TB) af gögnum, en það jafngildir um 3,4 milljónum mynda að sögn lögreglu.

Þá hefur Gailer upplýst að um 1.000 terabæt séu hluti af rannsókninni og að aðgerðin hafi verið mikið högg fyrir dreifendur barnaníðsefnis og muni hafa varanleg áhrif á vettvang barnaníðs.

Þá segir hann lögreglu enn vera að rannsaka málið og munu nú fara í gegnum öll þau sönnunargögn sem hún hafi safnað að sér. 

Finna megi grunaða víðs vegar um hnöttinn

Einnig segir Gailer að alþjóðleg löggæsluyfirvöld muni einnig halda rannsókn áfram, þar sem hægt er að finna grunaða einstaklinga í öllum heimsálfum.

Innanríkisráðherra Norðurrínar-Vestfalíu, Herbert Reul, hefur kallað rannsóknina gífurlega stóra og umfangsmikla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert