Harris metin heilsuhraust og þrýstir á Trump

Harris er með ofnæmi og ofsakláða.
Harris er með ofnæmi og ofsakláða. AFP/Kamil Krzaczynski

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi Demókrata, er við góða heilsu, bæði andlega og líkamlega. Að mati læknis hennar er hún vel hæf til þess að gegna embætti forseta.

Þetta kemur fram í nýrri læknisskýrslu Harris sem Hvíta húsið birti í dag.

Þá ætlar Harris að beita mótframbjóðanda hennar, Donald Trump, þrýstingi til þess að birta sínar heilsufarsskýrslur en hingað til hefur hann ekki viljað gefa upp nákvæmar heilsufarsupplýsingar.

Trump kveðst vera við góða heilsu

Í nýlegri grein sem birtist á New York Times lýsti Harris áhyggjum sínum af því að Trump hefði ekki viljað gefa grunnupplýsingar um heilsufar sitt. 

Trump kveðst aftur á móti vera við góða heilsu. Hann er 78 ára og yrði hann kjörinn forseti verður hann 82 ára þegar kjörtímabilinu lýkur. 

Kamala Harris er 59 ára og yrði hún kjörinn forseti yrði hún því 63 ára þegar kjörtímabilinu lýkur.

Læknir hennar, Joshua Simmons, segir í skýrslunni að Harris þjáist af árstíðabundnu ofnæmi og ofsakláða. Það er meðhöndlað með bæði lyfseðilsskyldum og ólyfseðilsskyldum lyfjum. Þá er hún eilítið nærsýn og notar augnlinsur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert