Alex Salmond, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, var einn helsti baráttumaður fyrir sjálfstæði Skotlands. Hann efndi til þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 um sjálfstæði Skotlands en þjóðin hafnaði sjálfstæðinu og sagði hann af sér í kjölfarið.
Salmond lést í Norður-Makedóníu í dag, 69 ára að aldri. Hann var leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP) frá árinu 1990 til ársins 2000 og svo aftur frá 2004 til ársins 2014. Þá var hann forsætisráðherra Skotlands frá 2007-2014.
Salmond, sem hét fullu nafni Alexander Eliott Andersson Salmond, fæddist á gamlárskvöld árið 1954 í Linlithgow, skammt frá Edinborg.
Hann stundaði nám í hagfræði og miðaldasögu við St. Andrews-háskólann og hóf svo störf sem hagfræðingur hjá Royal Bank of Scotland áður en hann hóf stjórnmálaferil sinn.
Hann gekk til liðs við Skoska þjóðarflokkinn árið 1990 og fór með formennsku í honum til ársins 2000 þegar hann sagði skyndilega af sér þingmennsku og formennsku.
Hann sneri hins vegar aftur í stjórnmálin fjórum árum síðar og var endurkjörinn formaður SNP. Salmond fór með formennsku í flokknum til ársins 2014. Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, tók við af honum í kjölfarið.
Salmond stofnaði árið 2021 Alba-flokkinn og leiddi hann allt til dauðadags. Eitt helsta markmið flokksins hefur frá upphafi verið að vinna að sjálfstæði Skotlands. Salmond bauð sig fram í þingkosningum árið 2021 en komst ekki á þing.
Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, og Salmond, þáverandi forsætisráðherra Skotlands, funduðu árið 2012. Á fundinum ræddu þeir um áhuga Skota á að kynnast reynslu Íslendinga frá heimastjórn til lýðveldis.
Einnig ræddu þeir á fundinum viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins á Íslandi en forsætisráðherra Skotlands gagnrýndi þau harðlega. Breska ríkisstjórnin beitti hryðjuverkalöggjöf til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi.
Stuðningsmenn Salmond hafa lýst honum sem staðföstum og einstaklega góðum stjórnmálamanni. Andstæðingar hans sögðu hann vera hrokafullan, fullan kvenfyrirlitningar og popúlískan.
Árið 2017 byrjaði Salmond með viðtalsþátt á rússnesku sjónvarpsstöðinni RT, sem hann var harðlega gagnrýndur fyrir.
Salmond lætur eftir sig eiginkonu, Moira. Þau giftu sig árið 1987 og eignuðust engin börn.