Trump leiðir nú í sex af sjö sveifluríkjum

Kort/mbl.is

Áfram er fylgismunurinn á forsetaframbjóðendunum í Bandaríkjunum lítill sem enginn en Trump virðist þó vera að styrkja sig nú þegar aðeins 22 dagar eru til kosninga.

Samkvæmt RealClearPolitics mælist Donald Trump forsetaframbjóðandi repúblikana með forskot á Kamölu Harris forsetaframbjóðanda demókrata í sex af sjö sveifluríkjum en athygli vekur að fylgismunurinn er hvergi meiri en eitt prósentustig.

Það er því áfram ómögulegt að reyna að fullyrða um það hver muni vinna kosningarnar.

Harris leiðir í Wisconsin

Í Pennsylvaníu mælist Trump með 48,2% fylgi en Harris með 48,1%.

Í Georgíu og Norður-Karólínu mælist Trump með 0,5 prósentustiga forskot á Harris og í Arizona og Nevada er hann með um eins prósentustigs forskot.

Harris leiðir í Wisconsin en þar mælist hún með 48,3% fylgi á sama tíma og Trump mælist með 48% fylgi.

Donald Trump á kosningafundi í Arizona í gær.
Donald Trump á kosningafundi í Arizona í gær. AFP/Getty Images/Rebecca Noble

Efnahagsmálin brýnust

Dagblaðið The Wall Street Journal gaf út könnun á föstudag þar sem svarendur í sveifluríkjunum sjö voru spurðir um brýnustu málefnin og hvorum frambjóðandanum þeir treystu best fyrir að fara með þau málefni.

Efnahagsmálin eru brýnasta málefnið og þar á eftir koma innflytjendamálin. 50% svarenda treysta Trump betur til að sjá um efnahagsmálin á sama tíma og 40% svarenda segjast treysta Harris betur fyrir stjórn efnahagsmála.

Þá segja 52% svarenda að þau treysti Trump betur fyrir stjórn innflytjendamála og landamæranna. Aðeins 36% segja að þau treysti Harris betur.

Treysta Harris betur þegar kemur að aðgengi að fóstureyðingum

Harris er aftur á móti með forskot þegar kemur að þriðja mikilvægasta málinu sem er aðgengi að fóstureyðingum.

35% svarenda treysta Trump betur fyrir þeim málum en 51% svarenda treystir Harris betur.

Þá er Harris líka treyst betur en Trump til að taka á húsnæðisvandanum og heilbrigðismálum.

Kamala Harris á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær.
Kamala Harris á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær. AFP/Getty Images/Alex Wong

Treysta Trump betur fyrir stríðunum tveimur

Bandaríkin þjóna mikilvægu hlutverki á alþjóðasviðinu en Bandaríkjamenn velja sér þó ekki oft forseta á grundvelli stefnu þeirra í utanríkismálum.

Engu að síður voru svarendur spurðir um hvor frambjóðandinn væri betur til þess fallinn að takast á við Úkraínustríðið og stríðið á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Helmingur svarenda ber meira traust til Trumps hvað innrásarstríð Rússlands í Úkraínu varðar á sama tíma og 39% segjast treysta Harris betur.

Þá segja 48% að þau treysti Trump betur til að taka á stríði Ísraels og Hamas á sama tíma og aðeins 33% treysta Harris betur. Að hluta til má rekja það til mikilla deilna meðal demókrata um hvernig eigi að taka á síðarnefnda stríðinu.

Þótt könnunin hafi líkt og aðrar kannanir gefið til kynna að utanríkismál séu ekki í forgangi hjá kjósendum má orða það svo að næsti forseti muni engu að síður erfa málefni sem snúast um átök sem ekki er ljóst hvernig muni enda.

Fáir óákveðnir kjósendur

Kosningarnar munu líklega ráðast af atkvæðum óákveðinna kjósenda í komandi kosningum.

Í könnun WSJ kemur fram að aðeins 6% kjósenda í sveifluríkjunum séu óákveðin. Kjörsókn meðal þeirra verði líklega nokkuð dræm.

Þessir kjósendur segja að Trump hafi staðið sig betur sem forseti en Harris sem varaforseti, en spurðir um almenna sýn þeirra á hvorn frambjóðanda fyrir sig er Harris litin jákvæðari augum.

„Þeim líkar verr við Trump en þeir eru ánægðari með störf hans [en störf Harris],“ segir demókratinn Michael Bocian í samtali við The Wall Street Journal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert