Hefja á ný loftárás á Beirút

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Abir Sultan

Ísraelsher hóf eldflaugaárás á Suður-Beirút, höfuðborg Líbanons, í dag eftir fimm daga hlé. Skömmu áður en flugskeyti hæfðu borgina hafði Ísraelsher varað íbúa við og sagt þeim að yfirgefa svæðið.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafnaði skömmu áður ákalli um vopnahlé frá Líbanon og sagði að slíkt myndi einungis hleypa liðsmönnum Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna nær landamærum Ísraels.

Blaðamaður á vegum AFP-fréttaveitunnar sá svartan reyk stíga til himins þar sem tvær eldflaugar hæfðu Haret Hreik-hverfið. 

Ísraelsher segir annað skotið hafa hæft neðanjarðar vopnageymslu Hisbollah. 

Snemma í morgun sagði Ísraelsher að um 50 eldflaugum hefði verið skotið að Norður-Ísrael frá Líbanon. Ekkert mannfall hefur verið tilkynnt.

Ísraelsher sprengdi nokkur svæði í Suður- og Austur-Líbanon á fimmtudag, þar á meðal í Bekaa-dalnum þar sem sjúkrahús varð óstarfhæft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert