Leigumorðingi í dulargervi handtekinn

Morðinginn fannst eftir að Europol komst yfir mikilvægar upplýsingar í …
Morðinginn fannst eftir að Europol komst yfir mikilvægar upplýsingar í tengslum við rannsókn á dulkóðuðum samskiptasvæðum. Ljósmynd/Colourbox

Serbneska lögreglan, í samvinnu við Europol, handtók í gær hættulegan leigumorðingja sem var ráðinn af skipulögðum glæpasamtökum með hefnd í huga.

Einstaklingurinn fannst eftir að Europol komst yfir mikilvægar upplýsingar í tengslum við rannsókn á dulkóðuðum samskiptasvæðum sem skipulögð glæpasamtök hafa notað, að því er segir í tilkynningu

Yfirmaður glæpasamtakanna skipulagði drápið og var hann jafnframt lykilmaður í að ráða leigumorðingjann til starfa. Hann skipulagði flóttaleið morðingjans, réð tvo menn til viðbótar sem áttu að fylgjast með fyrirhuguðu fórnarlambi og útvegaði vopn sem átti að nota við morðið. Þau voru flutt til Serbíu, sérstaklega fyrir árásina.

Höfuðstöðvar Europol.
Höfuðstöðvar Europol. AFP

Skotinn í höfuðið

Fórnarlambið var drepið í Belgrad, höfuðborg Serbíu, árið 2021. Leigumorðinginn, sem þóttist vera eldri maður, var með grímu úr sílikoni á andlitinu og þóttist vera haltur. Hann skaut fórnarlambið í höfuðið þegar hann gekk fram hjá því.

Morðinginn hefur nú verið handtekinn, ásamt skipuleggjandanum og aðstoðarmönnunum tveimur.

Europol sendi sérstakan hóp til Belgrad til að aðstoða serbnesku lögregluna við handtökurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert