Watson óskar eftir pólitísku hæli í Frakklandi

Paul Watson fyrir utan dómshús í Nuuk í byrjun október.
Paul Watson fyrir utan dómshús í Nuuk í byrjun október. AFP/Leiff Josefsen

Aðgerðasinninn Paul Watson hefur beðið Emmanuel Macron Frakklandsforseta um pólitískt hæli.

Þetta kom fram á blaðamannafundi umhverfissamtakanna Sea Shepherd í París í dag. 

Wat­son var hand­tek­inn í Nuuk á Grænlandi í júlí á grund­velli alþjóðlegr­ar hand­töku­skip­un­ar sem alþjóðalög­regl­an In­terpol gaf út að beiðni Jap­ana. Hann hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi síðan á meðan dönsk stjórn­völd hafa fjallað um framsals­kröfu Jap­ana.

Bréf með beiðninni var sent forsetanum fyrir nokkrum dögum, en Watson bjó í Frakklandi áður en hann var handtekinn.

Mun deyja í japönsku fangelsi

Francois Zimeray, franskur lögmaður Watson, sagði á blaðamannafundinum að Watson hefði einungis vakið athygli á „ólöglegum“ hvalveiðum Japana. 

Handtökutilskipun Japana á hendur Watson var gefin út árið 2010 eft­ir að Wat­son reyndi að koma í veg fyr­ir hval­veiðar jap­anskra veiðimanna á Suður­heim­skaut­inu. 

Watson „mun aldrei fá sanngjörn réttarhöld“ ef hann verður framseldur sagði lögmaðurinn. 

„Ef hann verður fangelsaður í Japan mun hann aldrei komast út á lífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert