„Skelfileg hungursneyð“ bíði 345.000 Gasabúa

Palestínskur drengur í Al-Shati-flóttamannabúðunum á Gasasvæðinu í dag með súpu …
Palestínskur drengur í Al-Shati-flóttamannabúðunum á Gasasvæðinu í dag með súpu í potti sem hann fékk við matarúthlutun. Sameinuðu þjóðirnar spá skelfingarástandi á Gasa í vetur og reikna með að 345.000 manns muni ekki eiga til hnífs og skeiðar. AFP/Omar Al-Qattaa

Búast má við að um 345.000 íbúa Gasasvæðisins bíði „skelfileg hungursneyð“ nú er vetur fer í hönd, eftir því sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna gefa út tilkynningu um í dag og vara þar við afleiðingum takmarkaðra birgðaflutninga til svæðisins vegna átaka Ísraela og Hamas-samtakanna á svæðinu.

Nemur fjöldinn tæplega þreföldun á við ástandið núna, sem þó er allt annað en gott, þar sem 133.000 manns á Gasa búa nú við „skelfilegt fæðuóöryggi“ (e. catastrophic food insecurity) þegar litið er til viðmiða SÞ og hjálparstofnana.

Ört minnkandi aðstoð

Aukin aðstoð alþjóðasamfélagsins í sumar varð almennum borgurum á Gasa lyftistöng samkvæmt skýrslu IPC, eða Integrated Food Security Phase Classification, sem metur fæðuöryggi á mismunandi svæðum í heiminum, en útlitið er öllu dekkra fyrir þá mánuði sem nú fara í hönd og gera ráð fyrir að sextán prósent íbúa svæðisins, 345.000 manns, muni ekki eiga til hnífs og skeiðar.

Kemur fram í skýrslunni að ört minnkandi alþjóðleg aðstoð muni hafa veruleg áhrif á möguleika fjölskyldna til fæðuöflunar og útvegunar lífsnauðsynlegrar vöru og þjónustu næstu mánuðina nema miklar breytingar verði á aðföngum og aðstoð.

„Vörubirgðir eru á þrotum, fólk hefur hrakist að heiman í miklum mæli, innviðir eru skaddaðir, hrun hefur orðið í landbúnaði og fólk hefur ekkert fé milli handanna,“ segir Arif Husain, yfirhagfræðingur Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, og bætir því við að í framangreindri skýrslu IPC muni ástandið versna frá nóvembermánuði að telja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert