Ginna ungmenni með tónlist

Úr einu tónlistarmyndbanda manns á fertugsaldri sem situr við fjórtánda …
Úr einu tónlistarmyndbanda manns á fertugsaldri sem situr við fjórtánda mann í gæsluvarðhaldi í kjölfar stærstu aðgerðar lögreglunnar í Agder. Skjáskot/Tónlistarmyndband

Lögreglan í Agder í Suður-Noregi telur einsýnt að stórtækir fíkniefnasalar í svokölluðu „BB-gengi“ lokki til sín ungmenni gegnum tónlistarmyndbönd og þvingi þau í framhaldinu til að koma að sölu og dreifingu efna í landshlutanum. Tuttugu og einn hefur nú verið handtekinn í stærstu lögregluaðgerð sem átt hefur sér stað í Agder-fylki fyrr og síðar.

„Við teljum þá ná til ungmennanna með tónlist, notkun tákna og samfélagsmiðla,“ segir Morten Sjustøl, aðstoðarlögreglustjóri í Agder, við norska ríkisútvarpið NRK en í viðtengdri frétt mbl.is hér að ofan, frá því á miðvikudag, segir meðal annars af því er Terje Kadde­berg Ska­ar, ákæru­valds­full­trúi lög­regl­unn­ar í Ag­der, gerði grein fyr­ir mál­inu á blaðamannafundi á miðvikudaginn.

Kvað hann hina hand­teknu liggja und­ir grun um stór­felld fíkni­efna­brot og hefðu marg­ir þeirra áður hlotið refsi­dóma. Hafði lög­regla þá þegar farið fram á gæslu­v­arðhalds­úrsk­urð í til­felli tólf hinna hand­teknu, en þeir eru nú orðnir fjórtán.

Þar á meðal er tónlistarmaður á fertugsaldri sem áður hefur tjáð sig opinskátt í hlaðvarpsþætti um vopnaburð, fíkniefnaneyslu og afbrot – sín og annarra.

Laufblað, súkkulaði og rafmagnskló

Vísar NRK í umfjöllun sína frá því í nóvember 2019 um táknfræði fíkniefnasölu á lýðnetinu sem enn mun í fullu gildi, en þar ræddi lögregla þau tákn sem í notkun voru og eru enn, þar sem myndir af til dæmis laufblaði hlyns og súkkulaðistykki tákna mismunandi tegundir efna en rafmagnskló gefur til kynna að viðkomandi eigi sölubirgðir.

„Hefur þú séð þessi tákn?“ spurði lögreglan í austurumdæminu á …
„Hefur þú séð þessi tákn?“ spurði lögreglan í austurumdæminu á sínum tíma. Myndin er úr frétt NRK frá 2019 en táknfræðin mun enn í fullu gildi. Skjáskot/Norska lögreglan

Sagði lögregla í þessari fimm ára gömlu umfjöllun NRK frá því að henni hefði tekist að láta loka hópum á samfélagsmiðlinum Snapchat þar sem efni væru boðin til sölu í Follo í Akershus-fylki í nágrenni Óslóar. Enn fremur greindi hún frá því að kannabisefni væru algengasta söluvaran en sterk efni þó í boði og Jostein Dammyr, fagstjóri nethóps lögreglunnar í austurumdæminu, sagði frá því að flest ungmenni á svæðinu ættu mun auðveldara með að útvega sér fíkniefni en áfengi.

Fjöldi skotvopna gerður upptækur

Tónlistarmaðurinn, sem er einn hinna handteknu í stóra málinu sem nú er komið upp, hefur áður hlotið refsidóm fyrir fíkniefnabrot, árið 2006, og situr nú í gæsluvarðhaldi fyrir sams konar brot. Að sögn verjanda hans, Johannesar Wegners Mælands, játar grunaði ekki sök í málinu.

Auk Mælands hefur NRK rætt eða reynt að ræða við verjendur allra þeirra fjórtán sem sitja í gæsluvarðhaldi og segja sjö þeirra skjólstæðinga sína neita sök, fjórir vilja ekki tjá sig um málið og í þrjá hefur ekki náðst.

Tónlistarmaðurinn handtekni á mynd sem hann birtir af sér á …
Tónlistarmaðurinn handtekni á mynd sem hann birtir af sér á samfélagsmiðlum og þarf vart að undrast að sitja nú í gæsluvarðhaldi. Lögregla gerði fjölda vopna upptækan í aðgerð sinni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Á föstudag sendi lögreglan í Agder frá sér tilkynningu um málið og sagði þar meðal annars að hún hefði lagt hald á fjölda skotvopna sem hlypi á tveggja stafa tölu í aðgerðinni og var í tilkynningunni haft eftir Skaar ákæruvaldsfulltrúa að umfangsmikilli lögreglurannsókn hefði nú verið hleypt af stokkunum í kjölfar þessarar stærstu aðgerðar lögreglunnar í Agder fram til þessa.

NRK

NRK-II (umfjöllun um fíkniefnatákn frá 2019)

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert