Íbúar Kanaríeyja mótmæla enn á ný

Flestir komu saman á Amerísku ströndinni, eða um 6.500 manns.
Flestir komu saman á Amerísku ströndinni, eða um 6.500 manns. AFP/Desiree Martin

Þúsundir komu saman á kanarísku eyjunum, Gran Canaria, Fuerteventura og Tenerife í dag til að mótmæla of miklum fjölda ferðamanna sem þeir segja vera að kaffæra eyjaklasann. AFP-fréttastofan greinir frá.

Mótmælendur notuðust við slagorðið „Kanaríeyjar eiga sér takmörk“ en þeir komu saman á vinsælum ferðamannstöðum á eyjunum; í miðbæ Masapalomas, við vatnsrennibrautagarðinn á Fuerteventura og á Amerísku ströndinni á Tenerife.

Þar hrópuðu mótmælendur slagorð sín og veifuðu fána Kanaríeyja á meðan ferðamenn létu fara vel um sig á sólbekkjum. „Þetta er ströndin okkar,“ var meðal annars hrópað.

AFP/ Desiree Martin

16,2 milljónir heimsótt eyjarnar í fyrra

Einn skipuleggjenda mótmælanna sagði í samtali við AFP að ferðamannaiðnaðurinn ýtti undir fátækt, atvinnuleysi og eymd á Kanaríeyjum.

AFP/Desiree Martin

Á síðasta ári heimsóttu um 16,2 milljónir Kanaríeyjar, en ferðamönnum fjölgaði um tæp 11 prósent á milli ára. Um 2,2 milljónir búa á eyjunum.

Talið er að alls hafi 10 þúsund mótmælendur komið saman í dag, en fjölmennustu mótmælin voru á Amerísku ströndinni þar sem um 6.500 mótmælendur komu saman. Síðast var mótmælt í apríl af sömu ástæðu.

AFP/Desiree Martin



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert