Stunginn til bana í Ósló

Norskir lögreglumenn á eftirlitsgöngu við Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar. …
Norskir lögreglumenn á eftirlitsgöngu við Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar. Maður var stunginn til bana í gærkvöldi við Storgata ekki þar langt frá, spölkorn norðan aðalbrautarstöðvarinnar Oslo S. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Ósló hefur nú með höndum manndrápsrannsókn í kjölfar þess er maður á þrítugsaldri var stunginn til bana í miðborg norsku höfuðborgarinnar Óslóar í gærkvöldi.

Varð maðurinn fyrir árásinni við Storgata, sem liggur skammt norðan við aðalbrautarstöðina Oslo S og hefur lögregla handtekið tvo menn, einnig á þrítugsaldri, sem grunaðir eru um manndráp og samverknað við manndráp, eftir því sem Anne Alræk Solem yfirlögregluþjónn greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá.

„Lögregla rannsakar nú ástæðu verknaðarins. Byggt á þeim upplýsingum sem lögreglu eru tiltækar tengist þessi atburður ekki öðrum alvarlegum atburðum eða átökum í Ósló,“ segir í fréttatilkynningu sem lögregla sendi frá sér í dag.

Þegja um yfirheyrslu

Greindi Solem yfirlögregluþjónn frá því síðdegis í dag að annar grunuðu sæti þá í yfirheyrslu en vegna þess hve skammt rannsóknin væri á veg komin kysi lögregla að greina ekki frá því á þessu stigi málsins hvaða skýringar og málsástæður grunaði hefði haft uppi.

„Hann viðurkennir ekki sök,“ segir Bjørn Rudjord, verjandi þess sem yfirheyrður var í dag, en Christian Flemmen Johansen, verjandi hins mannsins sem situr í haldi lögreglu, segir skjólstæðing sinn ekki hafa tjáð sig við lögreglu enn sem komið er.

Lögreglu barst tilkynning um hnífstunguna klukkan 18:40 í gær að norskum tíma og var fórnarlambið í lífshættu við flutning á sjúkrahús, en skömmu eftir að þangað var komið lést maðurinn af sárum sínum.

Anne Lindboe borgarstjóri kveðst með böggum hildar, það sé ávallt …
Anne Lindboe borgarstjóri kveðst með böggum hildar, það sé ávallt skelfilegt er mannslíf fari forgörðum og ódæði eigi ekki að skilgreina Ósló. Ljósmynd/Óslóarborg/Sturlason

„Mér er mjög brugðið. Svona lagað viljum við ekki hafa í Ósló og það á ekki að skilgreina Ósló sem borg,“ segir Anne Lindboe borgarstjóri við TV2 og bætir því við að ávallt sé skelfilegt þegar mannslíf fari forgörðum. „Það er jákvætt að lögregla hafi þegar komið á vettvang og framkvæmt handtökur, að hún taki afbrot af þessu tagi föstum tökum,“ segir borgarstjóri enn fremur.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert