Hressilega gustar um Vestur-Noreg

Flugumferð á Flesland í Bergen gekk úr skaftinu í morgun …
Flugumferð á Flesland í Bergen gekk úr skaftinu í morgun þegar stormurinn Ashley fór um Vestland-fylki en hann er á leið í norður og má búast við að Þrændur finni næst fyrir honum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Marius Vassnes

Hauststormurinn „Ashley“ gerir nú ýmsa skráveifu í Vestur-Noregi þar sem rafmagnslaust hefur orðið, flug- og ferjuumferð raskast, umferð um brýr verið stöðvuð og skólum verið lokað í morgun. Þokast Ashley í norðurátt og er reiknað með að Þrændalög og Nordland-fylki verði næst fyrir honum.

Þannig máttu farþegar með morgunfluginu frá Gardermoen-flugvellinum við Ósló til Flesland-flugvallarins í Bergen sætta sig við að ná ekki til áfangastaðar síns þar sem ómögulegt reyndist að lenda vélinni á Flesland og var henni að lokum snúið aftur til höfuðstaðarins.

Morgunvélin frá Þrándheimi sætti sömu erfiðleikum er hún átti að lenda á Flesland klukkan 07:55 í morgun að norskum tíma og var henni að lokum beint til Óslóar einnig. Eftir því sem Øystein Schmidt, upplýsingafulltrúi flugfélagsins SAS í Noregi, greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá gerir flugfélagið það sem í þess valdi stendur til að koma farþegum í aðrar vélar sem búist er við að lent geti í höfuðstað Vestur-Noregs, Bergen, síðar í dag.

Áhöfnin föst í Bodø

Flugfélagið Widerøe hefur einnig orðið fyrir skakkaföllum í morgun og þurft að aflýsa fjölda flugferða, sumum vegna óbeinna áhrifa stormsins, svo sem þegar áhafnarstarfsfólk flugfélagsins var veðurteppt í Bodø í Nordland-fylki og komst hvorki lönd né strönd þegar það átti að vera mætt á flugvelli annars staðar í landinu.

Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru nú í gildi í Vestur-Noregi þar sem vindhraði hefur mestur mælst 41,1 metri á sekúndu á Kvamsfjellet eftir því sem veðurstofan Meteorologisk institutt greinir frá.

Þá urðu tafir á umferð þyrlna sem flytja starfsfólk á olíuborpöllum úti fyrir Bergen milli lands og palla og fóru þær fyrstu ekki í loftið fyrr en á ellefta tímanum í morgun að norskum tíma.

Þá eru nokkrir vegir á Vesturlandinu lokaðir vegna hættu á grjóthruni úr fjallshlíðum auk þess sem fjöldi ferja yfir óbrúaða firði siglir ekki vegna sjólags, svo sem ferjurnar sem gegna hlutverki E39-brautarinnar yfir Boknafjorden og sigla frá Mortavika, skammt frá Stavanger, yfir til Arsvågen, en þær eru jafnan í mikilli notkun og ferja svo dæmi séu nefnd langferðabifreiðar sem aka milli Stavanger annars vegar og Haugesund og Bergen hins vegar, norðan Boknafjorden.

Mynd tekin úr ferjunni M/S Stavangerfjord þar sem hún kemur …
Mynd tekin úr ferjunni M/S Stavangerfjord þar sem hún kemur að landi við Arsvågen, norðan Boknafjorden, eftir siglingu frá Mortavika, úti fyrir Stavanger. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Um þúsund heimili án rafmagns

Tæplega 700 heimili í sveitarfélaginu Gulen í Vestland-fylki, um hundrað kílómetra norður af Bergen, voru án rafmagns í morgun og tæplega 300 í Høyanger, sem aftur er í um það bil sömu fjarlægð í austur frá Gulen.

Þá hafa einhverjir leik- og grunnskólar við vesturströndina lokað dyrum sínum í dag vegna veðurs, en þær veðurviðvaranir sem nefndar eru hér að ofan eru í gildi til klukkan 17 í dag að norskum tíma.

NRK

VG

Bergensavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert