Líklega stærsta víkingaskip Noregs

Myklebust-haugurinn í Nordfjordeid var hinsta hvíla höfðingja, í honum hafa …
Myklebust-haugurinn í Nordfjordeid var hinsta hvíla höfðingja, í honum hafa fundist tvær kvenmannsgrafir og fjórar karlmanns. Haft er fyrir satt að Auðbjörn konungur af Firðafylki hafi verið lagður til hinstu hvílu í skipinu um 870 og eldur borinn að því sem líklega var stærsta víkingaskip Noregs. Ljósmynd/Þjóðminjavörður/Riksantikvaren/Jan Magnus Weiberg-Aurdal

Myklebust-skipið svokallaða, sem fannst árið 1874 við uppgröft Myklebust-haugsins í Nordfjordeid í Noregi, í Vestland-fylki nánar tiltekið (á þeim tíma raunar Bergenhus stiftamt) gæti hafa verið stærsta víkingaskip Noregs fyrr og síðar. Þetta segir Hanna Geiran þjóðminjavörður í samtali við norska dagblaðið VG.

Það var fornleifafræðingurinn Anders Lorange sem rauf hauginn og rannsakaði hann árið 1874, árið sem Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá úr hendi Kristjáns níunda Danakonungs.

Skipið var brennt við útför höfðingjans sem lagður var til hinstu hvílu í haugnum, en samkvæmt kenningum norskra fornleifafræðinga hefur Myklebust-skipið að öllum líkindum verið konungsskip og hefur það verið eignað Auðbirni konungi af Firðafylki (n. kong Audbjørn av Fjordane) sem féll í orrustunni við Solskjel árið 870. Það ártal rímar nokkurn veginn við aldursgreiningu þeirra gripa sem fundust í haugnum.

Sextán tonna stöðutákn

Alls hafa fimm grafhaugar fundist í landi höfðingjasetursins Myklebustgården og sker haugurinn með víkingaskipinu stóra sig þar nokkuð úr en hann hefur gengið undir heitinu Rundehågjen.

Í haugnum, sem er 32 metrar að þvermáli og 3,8 metra hár, fann fornleifafræðingurinn Haakon Shetelig tvær kvenmannsgrafir og fjórar karlmannsgrafir er hann gróf í haugnum árin 1902 og '03. Hafði haugurinn, miðað við aldursgreiningar, verið notaður sem grafreitur tiginna manna og kvenna um tveggja alda skeið.

Myklebust-skipið, sem hefur verið smíðað eftir miðja níundu öldina, var engin smásmíði. Það var 30 metra langt og sex metrar á breidd um miðbikið. Stafnhæð skipsins hefur verið um sjö metrar, árapör 24 og varnarskildir fyrir ræðara þar með 48 í heildina. Járnnaglar, sem héldu smíðinni saman, hafa verið um 7.000, trénaglar um 700 og Myklebust-skipið hefur vegið um sextán tonn.

Myklebust skipið sjósett í apríl 2019 eftir endurbyggingu sem stóð …
Myklebust skipið sjósett í apríl 2019 eftir endurbyggingu sem stóð í þrjú ár og lögð voru á ráðin um frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tiendeklasse

Féll í skugga hinna annáluðustu

Hið volduga Ásubergsskip, sem fannst árið 1904 við bæinn Tønsberg, um hundrað kílómetra suður af Ósló, var „ekki nema“ 21,5 metrar að lengd og er það þó – ásamt Gauksstaðaskipinu sem fannst árið 1880 í hvalveiðibænum Sandefjord, skammt sunnan Tønsberg, og er 24 metra langt – talið meðal stærri víkingaskipa, nokkru eldra en Myklebust-skipið, smíðað um 820, en Gauksstaðaskipið er lítið eitt yngra skip, árgerð 890 eða þar um bil.

Líkast til hefði hin gríðarlega stærð Myklebust-skipsins orðið almenn vitneskja mun fyrr – sennilega þegar við rannsókn hins þá 27 ára gamla Anders Lorange, lögfræðings en einnig fornleifafræðings við Minjasafnið í Bergen – hefði fundur þess ekki fallið í skuggann af fundi hinna tveggja, Gauksstaðaskipsins fyrst, sem fannst aðeins sex árum á eftir Myklebust-skipinu.

Hinn stórvaxni mastra jór, sem varð, að líkindum, hinsti hvílustaðar Auðbjarnar af Firðafylki, gleymdist einfaldlega og rumskuðu fræðingar ekki til þeirrar iðju að hefja rannsóknir á Myklebust-haugnum á nýjan leik fyrr en áratugum síðar.

Drekinn endurvakinn

Það var svo á tíunda áratug liðinnar aldar sem hugmyndir kviknuðu um að endurgera skipið í sem upprunalegastri mynd og hófst sú vinna árið 2016, þar sem aðeins var beitt skipasmíðatækni níundu aldar, og kom það í hlut útskurðarmeistarans Rolf Taraldset frá Hornindal að skera út vígalegt drekahöfuðið í stafni skipsins og hala drekans á skut þess og bar handbragðið meistaranum fagurt vitni þegar endurgert Myklebust-skipið var sjósett með viðhöfn í Eidsfjorden við Nordfjordeid 27. apríl 2019, upprunaleg sextán tonn að þyngd og 30 metra langt.

Hanna Geiran þjóðminjavörður heldur á einum naglanna sem reknir voru …
Hanna Geiran þjóðminjavörður heldur á einum naglanna sem reknir voru í Myklebust-skipið við smíði þess um það bil árið 870. Ljósmynd/Þjóðminjavörður/Riksantikvaren/Jan Magnus Weiberg-Aurdal

„Skipið var gríðarstórt,“ segir Morten Ramstad, sviðsstjóri fornmunasviðs Háskólans í Bergen, við VG og vísar þar til þess forvera nýsmíðinnar sem uppgötvaðist í konungshaugnum árið 1874, „það má ráða af hinni mismunandi stærð naglanna sem segir okkur að Myklebust-skipið var verðugt víkingaskip,“ heldur hann áfram.

Myklebust-haugurinn var grafinn upp að undirlagi þjóðminjavarðar norska ríkisins í samstarfi fornleifafræðinga við Háskólana í Bergen og Stavanger.

VG

Teknisk ukeblad

Á heimasíðu Sagastad-safnsins má skoða vandaðar ljósmyndir af skipinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert