Rannsaka vígabrennu í Svíþjóð

Strandgatan í Södertälje en í bænum, sem er skammt suðvestur …
Strandgatan í Södertälje en í bænum, sem er skammt suðvestur af Stokkhólmi, búa rúmlega 70.000 manns. Lögreglu grunar að kveikt hafi verið í fjölbýlishúsi þar í bænum á laugardaginn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Holger Ellgaard

Átta manns voru fluttir á sjúkrahús í sænska bænum Södertälje, um 30 kílómetra suðvestur af höfuðborginni Stokkhólmi, á laugardaginn eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi í hverfinu Ronna þar í bænum, en lögreglu grunar að kveikt hafi verið í húsinu og rannsakar málið sem „mordbrand“ eða morðbrennu, hugtak sem raunar var til í gömlu íslensku lagamáli og nefndist þar einnig vígabrenna.

„Enginn hefur verið handtekinn,“ sagði Mats Eriksson upplýsingafulltrúi lögreglu í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT í gær, en lögregla rýmdi bygginguna eftir að eldurinn kom upp og mikill reykjarmökkur umlukti húsið. Voru íbúarnir fluttir í nærliggjandi skólabyggingu til að byrja með.

Telja eld hafa kviknað víða

Þurfti slökkvilið að beita bifreiðum með stiga til að bjarga íbúum hússins af svölum íbúða sinna þar sem þeir voru innikróaðir vegna elds og reyks í stigagöngum – í húsinu eru skráðir 66 íbúar.

Enginn þeirra átta, sem fluttir voru á sjúkrahús, reyndist kenna sér alvarlegra meina, engu að síður var ástand tveggja þeirra metið svo að þeir voru lagðir inn, aðrir voru sendir heim að skoðun lokinni.

Ola Österling, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, kveður ýmislegt benda til þess við fyrstu sýn að um stórfellda vígabrennu, „grov mordbrand“, sé að ræða. „Við teljum að eldur hafi komið upp samtímis víða um bygginguna og drögum af þá ályktun að saknæm háttsemi hafi átt sér stað,“ segir Österling við SVT.

Hefur lögregla nú afgirt húsið og bannað allan aðgang að því á meðan tæknideild rannsakar málið og kveður Österling lokunina munu vara í nokkra sólarhringa hið minnsta.

SVT

Aftonbladet

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert