Fangar sóttir á lúxuskerrum

Keir Starmer forsætisráðherra ræðir við sjúkraflutningamenn í gær. Þeir gætu …
Keir Starmer forsætisráðherra ræðir við sjúkraflutningamenn í gær. Þeir gætu átt annríkt næstu daga miðað við nýjustu vendingar Breta í fangelsismálum. AFP/Jaimi Joy

Bresk fangelsismálayfirvöld hófu í dag að sleppa hópi eitt þúsund fanga úr fangelsum landsins sem gert verður í skömmtum næstu daga til að stemma stigu við að þau yfirfyllist sem þó er hálfpartinn nú þegar orðin raunin.

Talsmaður Keirs Starmers forsætisráðherra kvaðst skilja „reiði almennings“ yfir slíkum örþrifaráðum en stjórnvald hafi átt „einskis annars úrkosti“ eins og staðan er orðin.

Er það talið stjórnvöldum til háðungar, að sögn AFP-fréttastofunnar, að fangarnir voru sóttir hver af öðrum á lúxusbifreiðum er þeir gengu út úr prísund sinni. Þannig hafi hópur manna í samlitum hettupeysum til dæmis sótt fanga sem gekk út úr fangelsinu í Kent og ekið á brott á svartri Rolls Royce-bifreið.

Annar fangi, sem ræddi við fréttamenn á leið út úr sama fangelsi, kvaðst hafa verið að afplána sjö ára dóm fyrir mannrán og stórfellt líkamstjón. Ekki dugðu færri en tveir færleikir til að koma honum heim, hvítur Bentley og svartur Mercedes Benz G-jeppi.

Sprautuðu freyðivíni í allar áttir

Þetta er ekki fyrsti fangahópurinn sem fær óvænt frelsi vegna rýmishörguls í fangelsum, í september gengu 1.700 fangar út úr klefum sínum og náðist mynd af vænum hópi þeirra sprauta Prosecco-freyðivíni í allar áttir í tilefni dagamunarins.

Fyrrnefndur talsmaður ráðherra kennir fyrri ríkisstjórn Íhaldsflokksins um frelsi bæjarins verstu, hún hafi einfaldlega ekki reynst starfi sínu vaxin á vettvangi refsivörslukerfisins.

„Hefðum við ekki fundið leiðir til úrbóta hefði algjört hrun kerfisins verið næst á dagskrá, dómstólar hefðu ekki getað sent brotamenn í fangelsi, lögregla ekki getað handtekið meinta brotamenn og dregið úr afbrotum á götum okkar, ríkisstjórnin gat ekki látið slíkt gerast,“ hefur AFP eftir málpípu Starmers.

„Óbanvænar kyrkingar“

Hefur sama ríkisstjórn nú skipað nefnd til að leggjast yfir málið eftir föngum og gera tillögur til úrbóta meðal hverra hefur heyrst að séu ýmis opin úrræði sem geri dæmdum kleift að afplána heima, sæta þar útgöngubönnum með ýmsum eftirlitstækjum, öllu frá ökklaböndum upp í snjallúr og smáforrit.

Meðal þeirra sem nú hafa fengið frelsið eru kynferðisbrotamenn og afbrotamenn sem hlotið hafa þyngri en fjögurra ára dóma fyrir stórfelldar líkamsárásir. Meðal þeirra sem hins vegar hafa ekki fengið að ganga út í frelsið eru svokallaðir eltihrellar og brotamenn sem gerst hafa sekir um „óbanvænar kyrkingar og öndunarvegslokanir“ (e. "non-fatal strangulation and suffocation").

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert