Handsprengjunotkun sænskra gengja stóreykst

Sænska lögreglan á vettvangi sprengjutilræðis í byrjun október. Sænsk gengi …
Sænska lögreglan á vettvangi sprengjutilræðis í byrjun október. Sænsk gengi hafa í auknum mæli tekið handsprengjur í notkun. AFP/Anders Wiklund

Sænsk glæpagengi beita handsprengjum nú í æ ríkari mæli við árásir á fjendur sína, eftir því sem þarlend lögregla segir ríkisútvarpinu SVT frá, en sænska tollgæslan greinir þar enn fremur frá stórauknu smygli á handsprengjum til Svíþjóðar.

Nú er orðið óhægt um vik fyrir gengin að stela sprengiefni frá verktökum á byggingarsvæðum í skjóli nætur. Verktakar búa einfaldlega betur um slíkan varning og huga gerlegar að öryggismálum við geymslu sprengiefna í kjölfar mikillar fjölmiðlaumfjöllunar síðustu misseri um alvarleg sprengitilræði við heimili fólks þar sem heilu húsin hafa stórskaðast og íbúar legið eftir látnir eða alvarlega særðir.

Þá hafa svokallaðir sprengjugerðarmenn glæpagengja undanfarið hlotið þunga fangelsisdóma í kjölfar saksóknar.

Áður illfinnanleg smyglvara

Fyrir fjórum dögum, 18. október, voru árásir með handsprengjum orðnar rúmlega tvöfalt fleiri í ár en allt árið í fyrra, 22 á móti níu.

„Fram til þessa hafa handsprengjur verið illfinnanleg smyglvara,“ segir Stefan Granath, starfandi yfirmaður tollgæslusviðs sænsku tollgæslunnar, við SVT, en á hans vígstöðvum fundu tollverðir ekki eina einustu handsprengju í fyrra við leit á landamærum – í ár eru þær orðnar 30.

„Handsprengja er einfalt verkfæri að gerð,“ bendir Malin Nygren á, forstöðumaður sænska sprengjugagnaversins (s. nationellt bombdatacenter) sem heyrir undir lögregluyfirvöld, „hún þarfnast einskis undirbúnings, hún kemur tilbúin,“ segir hún við SVT.

Um miðjan september var kona handtekin eftir að hafa ekið yfir Eyrarsundsbrúna frá Danmörku til Svíþjóðar og reyndist við eftirgrennslan sænskra tollvarða hafa handsprengjur meðferðis. Bíður hennar ákæra fyrir stórfellt vopnalagabrot.

SVT

SVT-II (öruggari geymsla sprengiefnis)

SVT-III (konan handtekin)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert